Komum í veg fyrir bruna af völdum kerta

Nú fer í hönd tími mikillar kertanotkunar þar sem hvimleiður fylgifiskur getur verið fjölgun bruna sem rekja má til kerta. Sem betur fer er oftast um að ræða minni háttar kertabruna sem hafa í för með sér lítið fjárhagslegt tjón en þeir minna okkur á að mjög lítið þarf til að stórtjón verði eða það sem alvarlega er slys á einstaklingum.

-Þróun undanfarinna ára sýnir að kertabrunum hefur fækkað  og það er ekki síst vegna þess að fræðsla til almennings um rétta og örugga notkun hefur aukist til muna, segir Fjóla Guðjónsdóttir forstöðumaður forvarna Sjóvá.

Tölur Sjóvá sýna að fjöldi tilkynntra bruna vegna kerta eða kertaskreytinga frá árinu 2005 til nóvember 2012 hefur fækkað umtalsvert.  Hins vegar er það svo að flestir kertabrunar verða í desember.

Hvers vegna kviknar í út frá kertum?

-Helsta ástæða bruna af völdum kerta er sú að það gleymist að slökkva á þeim eða að þau eru skilin eftir logandi í herbergi þar sem enginn er segir Fjóla.  -Þetta á jafnt við á um heimili sem og fyrirtæki.  Það ber því að ítreka það enn og aftur að slökkva á kertum þegar farið er út úr herbergi.

Frá árinu 2005 og fram til nóvember 2012 hefur Sjóvá skráð rúmlega 400 tilkynningar um kertabruna.  Þessi tala segir þó ekki alla söguna, kertabrunar eru mun fleiri enda ótaldir brunar sem aldrei eru tilkynntir eða koma til afgreiðslu hjá öðrum vátryggingarfélögum.  Sem betur fer þá er í flestum tilfellum um að ræða bruna án slysa og lítið fjárhagsleg tjón til dæmis, brunnið borð, gluggakista eða gardína en höfum í huga að það þarf ótrúlega lítið til að minni háttar kertabruni verði að stórtjóni eða slysi.

-Það er líka athyglisvert að flestir kertabrunar verða á aðfangadag, jóladag, gamlársdag og á nýársdag eða þá daga sem við erum heima í faðmi fjölskyldunnar.  Besta ráðið til þess að fyrirbyggja kertabruna er því að slökkva ávallt á kerti þegar herbergi er yfirgefið.  Þannig minnkum við líkurnar á bruna vegna kerta verulega, segir Fjóla.

Nokkur góð ráð til þess að koma í veg fyrir kertabruna

  • §  Skiljið aldrei eftir logandi kerti þegar herbergi er yfirgefið
  • §  Undirlag kerta (kertastjaki) þarf að vera stöðugur og óbrennanlegur
  • §  Auðbrennanlegt efni s.s. borðar eða greni má ekki vera of nærri kertaloga
  • §  Staðsetjið ekki kerti of nærri gardínu í eða við glugga
  • §  Staðsetjið kerti ekki ofan á eða nærri raftækjum s.s. sjónvarpi
  • §  Ef börn eða dýr eru á heimili skal varast að setja kerti í gangveginn og á lág borð
  • §  Ekki öll ílát henta sem kertastjakar, falleg glös eða önnur ílát geta hitnað og sprungið við hitann frá kertinu
  • §  Hafið ekki mishá kerti of nærri hvort öðru. Kertaloginn getur brætt hærra kertið
  • §  Styttið langan kertakveik. Hann á ekki að vera lengri en 15-20 mm
  • §  Treystið aldrei alfarið á sjálfslökkvandi kerti eða eldtefjandi efni
  • §  Athugið að vax sprittkerta verður fljótandi og því ekki æskilegt að færa það úr stað á meðan logar á kertinu.

Kertaskreytingar

  • §  Gætið þess að skrautið á skreytingunni s.s. borðar eða greni sé ekki staðsett þar sem hætta er á að kertaloginn nái til.
  • §  Veljið kertastjaka sem eru óbrennanlegir og stöðugir og leiða ekki hita
  • §  Veldu kerti þar sem kveikurinn nær ekki alveg niður
  • §  Til er eldtefjandi efni til að sprauta á kertaskreytingar en varist að teysta alfarið á slíkt
  • §  Hafðu í huga að grenið verður þurrt þegar líður á desember og auðbrennanlegra.

Föndur og aukahlutir á kertum

  • §  Aukahlutir sem settir eru utan á kerti  geta aukið brunahættu.  Dæmi um slíkt eru. servéttur, borðar, skraut, pappír, glimmer eða þurrkaðir ávextir
  • §  Kerti sem eru húðuð t.d. með silfri eða gulli eiga það til að ósa meira en venjuleg kerti. Til eru dæmi  um að húð slíkra kerta bráðni utan af kertunum eða það kvikni í ysta lagi kertanna.
  • §  Kerti sem eru þríhyrnings eða kúlulaga eru viðkvæm fyrir dragsúgi. Vax þeirra á það til að renna til hliðar sem getur skapað brunahættu.

Útikerti

  • §  Staðsetning útikerta skiptir miklu máli. Ekki er öruggt að setja þau á trépall, trégirðingu eða annað efni sem brennur auðveldlega.
  • §  Staðsetjið útikerti ekki of nærri inngangi eða í tröppur þar sem hægt er að reka sig í þau.
  • §  Logi útikerta getur auðveldlega náð til flaksandi yfirhafna og gangandi barna.
  • §  Mörg útikerti eru þannig að vax þeirra verður allt fljótandi og formið verður heitt.
  • §  Snertið ekki form útikerta með berum höndum og alls ekki þegar kveikt er á þeim.
  • §  Ef snjór eða vatn slettist á bráðið vax útikerta getur orðið sprenging og heitt vaxið farið á þann sem stendur nærri.
  • §  Ekki hella vatni á útikerti ef ætlunin er að slökkva á því – betra er að kæfa eldinn.

Fleiri fréttir