Körfuboltamót á Blönduósi á laugardaginn

Helgi Margeirs með flottum hópi krakka sem mættu á námskeið Körfuboltaskóla Norðurlands vestra sem haldið var á Hólmavík nú í nóvember. MYND: KNV
Helgi Margeirs með flottum hópi krakka sem mættu á námskeið Körfuboltaskóla Norðurlands vestra sem haldið var á Hólmavík nú í nóvember. MYND: KNV

Körfuboltaskóli Norðurlands vestra stendur fyrir körfuboltamóti á Blönduósi laugardaginn 21. desember. Mótið er fyrir alla krakka á aldrinum 8-16 ára en það verður með því sniði að skipt verður í lið og verður spilað í þremur aldursflokkum; 8-9 ára, 10-12 ára og 13 ára og eldri. Feykir hafði samband við Helga Margeirsson hjá KNV og spurði hann út í mótið og körfuboltaáhugann í Húnavatnssýslum.

Hvernig hafa námskeið Körfuboltaskólans gengið? „Þau hafa gengið mjög vel. Við höfum haft námskeið á Skagaströnd, Blönduósi og Hólmavík núna fyrir áramótin ásamt því að ég hef verið með tvær reglulegar æfingar í viku á Blönduósi. Það var hægt með stuðningi Blönduósbæjar og fyrirtækja í bænum sem styrktu þær æfingar sem voru því gjaldfrjálsar fyrir krakkana. Það mættu í það heila 42 einstaklingar. Ég var með aldursskipt þannig að 8-11 ára æfðu á mánudögum og 12 ára og eldri á þriðjudögum. Nákvæmlega þriðjungur þátttakenda voru stelpur sem var mjög gott en auðvitað vill maður hafa þetta alveg jafnt.“

Hefurðu verið einn með námskeiðin? „Núna fyrir áramótin hef ég verið einn með námskeiðin en það er nú meira vegna þess að ég hef átt erfitt með að finna aðstoðarþjálfara með mér í verkefnið. Sigurður Aadnegaard aðstoðaði mig með yngri hópinn á reglulegu æfingunum á Blönduósi.“

Er bullandi áhugi á körfubolta á Blönduósi og nágrenni? „Áhuginn er mjög mikill og það þarf að hamra járnið meðan það er heitt, mig vantar kannski bara meiri aðstoð til að geta haldið þessu öllu úti með reglulegri æfingum. Guðrún Elísdóttir ýtti þessum reglulegu æfingum úr vör og fékk mig til liðs við sig og svo fyrirtækin í bænum til að styrkja verkefnið því að krakkarnir sækjast í körfubolta og áhuginn er mjög mikill.

Og eru Blönduósingar bullandi Tindastóls-aðdáendur þegar kemur að körfubolta? „Algjörlega og líka Skagstrendingar og Hvammstangabúar – ég hef bara ekki náð að setja upp námskeið á Hvammstanga núna fyrir jólin,“ segir Helgi og bætir við að hann sé mikið spurður um hvar hægt sé að verða sér úti um Tindastólsbúninga. Þá er fólki bent á að senda póst á karfa-unglingarad@tindastoll.is.

 Helgi hvetur áhugasama til að skrá þátttöku á mótinu á Blönduósi sem fyrst en skráning er opin fram á miðjan föstudag. Þátttökugjald er kr. 1.500.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir