Landinn í loftið á ný
Nú er að hefjast fjórða sýningartímabil Landans en þáttur númer 125, frá upphafi, fer í loftið á RÚV sunnudagskvöldið 6. október, strax á eftir fréttum. Landinn hefur síðustu þrjú árin verið með vinsælasta sjónvarpsefni landsins og áhorf gjarnan verið um og yfir þrjátíu prósent. Í þættinum er ávallt farið vítt um völl og fjallað um allt milli himins og jarðar. Dagskrárgerðarmenn Landans sérhæfa sig þó í að segja sögur, sögur af fólki. Þá er lagt upp með það einfalda leiðarljós að þátturinn sé um eitthvað!
Það verða engar stórbreytingar á þættinum í vetur, enda töldu aðstandendur þáttarins enga ástæðu til að breyta neinu sérstaklega. Áfram verður fjallað um það sem landinn hefur fyrir stafni út um allt land, jafnt á landsbyggðinni sem á höfuðborgarsvæðinu.
Umsjónarmenn Landans í vetur eru Sigríður Halldórsdóttir, sem jafnframt er annar aðalkynnir þáttarins, Kristín Sigurðardóttir, Guðmundur Pálsson, Þórhildur Ólafsdóttir Þórgunnur Oddsdóttir og Gísli Einarsson, sem áfram er ritstjóri og kynnir þáttarins. Þá er Karl Sigtryggsson yfir myndgerð þáttarins en aðrir tæknimenn eru Einar Rafnsson, Jóhannes Jónsson og Gunnlaugur Starri Gylfason.
Landinn er á dagskrá RÚV á eftir fréttum öll sunnudagskvöld í vetur. Þátturinn er endursýndur síðdegis á mánudögum og laugardögum. Þá er hægt að nálgast hann á Ruv.is/landinn og þá má geta þess að á Youtube og Facebook verður að finna ýmislegt aukaefni tengt þættinum.
Í fyrsta þættinum verður fjallað um sunnudagssteikina og Landinn slæst í för með Guðjóni Sigurðssyni, formanni MND félagsins, hvar hann lætur drauma sína rætast. Þá fer Landinn á Norðurlandamót Eldsmiða, á Akranesi, lítur inn í Lofthelli í Mývatnssveit, hittir flautuleikara hjá Metropolitan Óperunni og ræðir við pólskan rithöfund á Akureyri.
/Fréttatilkynning