Meðalatvinnutekjur á Norðurlandi vestra undir meðaltali

Skjáskot úr skýrslunni Atvinnutekjur 2008-2018 eftir atvinnugreinum og landshlutum.
Skjáskot úr skýrslunni Atvinnutekjur 2008-2018 eftir atvinnugreinum og landshlutum.

Byggðastofnun hefur gefið út skýrslu um atvinnutekjur árin 2008-2018 eftir atvinnugreinum og landshlutum. Skýrslan byggir á gögnum sem fengin voru frá Hagstofu Íslands sem vann þau úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. Skýrslan er sett fram á aðgengilegarn hátt þar sem gögn eru fyrst og fremst sett fram á myndrænan hátt.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru m.a. þær að heildaratvinnutekjur á árinu 2018 námu 1.316 milljörðum króna. Er það aukning um tæplega 64 milljarða króna frá árinu 2017 eða sem nemur 4,9%. Frá 2008 hafa atvinnutekjur á landinu öllu aukist um 256 milljarða króna eða um 24%. Mest aukning á tímabilinu varð í greinum tengdum ferðaþjónustu. Samdráttur varð í tveimur greinum, fjármála- og vátryggingastarfsemi og í fiskveiðum.

Stærstu greinar mældar í atvinnutekjum árið 2018 voru heilbrigðis- og félagsþjónusta með tæpa 139 milljarða króna, fræðslustarfsemi með 124 milljarða, iðnaður með 120 milljarða, verslun með 118 milljarða og flutningar og geymsla með 107 milljarða króna.

Á Norðurlandi vestra námu heildaratvinnutekjur 22,4 milljörðum króna á árinu 2018 og höfðu þær aukist um tæpan milljarð frá árinu á undan eða um 4,5%. Atvinnutekjur á svæðinu hafa aukist um 2,3 milljarða króna frá árinu 2008 eða um 11,6% en það er innan við helmingur af landsmeðaltali. Meðalatvinnutekjur á Norðurlandi vestra eru aðeins 83% af landsmeðaltali. Í Húnavatnssýslum er hlutfallið 77% en 88% í Skagafirði. Hlutfall atvinnutekna kvenna á svæðinu árið 2018 er þó aðeins yfir landsmeðaltali, í Húnavatnssýslum var það 43,6% en tæp 40% í Skagafirði. Stærstu atvinnugreinar á Norðurlandi vestra, mældar í atvinnutekjum, voru fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsmál. Þar á eftir voru stjórnsýsla- og almannatryggingar og verslun. Þá má nefna að 14,5% allra atvinnutekna af landbúnaði komu af Norðurlandi vestra.

 

Skýrsluna Atvinnutekjur 2008-2018 eftir atvinnugreinum og landshlutum má finna hér. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir