Miðfjarðará í fjórða sæti

Hrútafjarðará. Mynd Angling.is
Hrútafjarðará. Mynd Angling.is

Enn er veiðin fremur treg í húnvetnskum laxveiðám miðað við aflatölur síðustu ára. Á lista Landssambands veiðfélaga frá því um miðja síðustu viku yfir 75 aflahæstu árnar má sjá að Miðfjarðará er í fjórða sætinu yfir landið með 1.707 laxa en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst þar 2.173 laxar. Blanda er nú í tíunda sæti en þar hafa veiðst 832 laxar en þeir voru 1.219 fyrir ári síðan.

Laxá á Ásum situr í 17. sætinu með 467 laxa en 637 í fyrra, Víðidalsá er með 375 en 482 í fyrra og Vatnsdalsá með 278 en þar höfðu veiðst 424 á sama tíma á síðasta ári.

Hrútafjarðará og Síká hafa hins vegar skilað fleiri löxum en á síðasta ári. Þar hafa nú veiðst 222 laxar en sambærileg tala fyrir árið 2017 er 155 laxar. Þá er veiðin í Svartá svipuð og í fyrra en þar hafa nú veiðst 66 laxar en voru 63 á sama tíma á síðasta ári.

Á vef Vatnsdalsár kemur fram að þar hefur veiðin á silungasvæðinu verið mjög góð, feikna vænar og margar bleikjur. Ennfremur segir að silungsveiðimenn í Vatnsdalsá hafi talað um mikið magn af laxi á leið upp ána og vonast laxveiðimenn til að verða hans varir þegar fram líða stundir.

Lista yfir 75 aflahæstu árnar má sjá hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir