Nautasteik og góður ís á eftir

Matgæðingurinn Anna Birna... Aðsend mynd.
Matgæðingurinn Anna Birna... Aðsend mynd.

Matgæðingar vikunnar í fjórða tbl. ársins 2018 voru Húnvetningarnir Anna Birna Þorsteinsdóttir og Pétur Þröstur Baldursson sem höfðu þetta að segja: „Við hjónin búum í Þórukoti í Víðidal. Við eigum þrjú börn, Rakel Sunnu, Róbert Mána og Friðbert Dag. Einnig erum við svo heppin að geta haft tengdasoninn Jóhann Braga inn í þessari upptalningu. Hér er hefðbundinn blandaður búskapur með kúm, kvígum- og nautauppeldi, spari fé, hestum og hundinum Oliver. Allur barnaflotinn er fyrir sunnan við nám á veturna og gengur vel. Á meðan er veturinn notaður til að breyta súrheyshlöðu í uppeldishús fyrir nautgripi og lagfæra íbúðarhúsið.“ 

AÐALRÉTTUR
Heilgrillað nauta rib-eye

2 kg rib-eye steik
4 msk. ólífuolía
1 tsk. þurkað óreganó
¼ tsk. chiliduft
1 tsk. kummin
1 tsk. paprikuduft
3 hvítlaksrif, pressuð (ég bæti alltaf vel við)
vel af salti og pipar

Aðferð:                                                                                                                                                           

... og matgæðingurinn Pétur. Aðsend mynd.


Penslið steikina með olíu. Blandið öllu kryddinu saman og veltið kjötinu upp úr kryddblöndunni. Gott er að láta kjötið standa í a.m.k. eina klukkustund í stofuhita, jafnvel við hliðina á heitum ofninum.
Grillið við háan hita í tvær mínútur á öllum hliðum eða þar til fallegar grillrendur eru komnar á kjötið. Færið þá kjötið á kaldari stað á grillinu og eldið áfram í 40 -50 mín. Athugið að best er að nota kjarnhitamæli því steikurnar geta verið misþykkar og einnig hitinn á grillinu. Látið hitann ná 57°C. Þegar kjötið er tilbúð er það tekið af grillinu og látið standa í 15 mínútur áður en það er skorið niður.

Ef ykkur langar bara til að nota ofninn þá er best að loka kjötinu (allar hliðar)  á sjóðandi heitri pönnu og setja það svo inn í heitan ofninn. Best finnst okkur að hafa lágan hita í lengri tíma, 100 °C í 60 mínútur, jafnvel lengur. Hér gilda samt sömu lög og með grillið, alltaf að nota kjöthitamæli til að sjá þá steikingu sem þú sækist eftir.

Sveppasósa með piparosti

500 g sveppir, sneiddir
1 msk. smjör
3 msk. ólífuolía
½ dl vatn
3 msk. fljótandi kjötkraftur
1 pk. rifinn piparostur, 85 g
½ l rjómi
salt og pipar

Aðferð:
Skerið sveppina niður og steikið upp úr smjöri og olíu. Kryddið með salti og pipar. Setjið vatn og kjötkraft saman við og látið suðuna koma upp. Bætið þá piparosti út í og bræðið ostinn. Setjið svo rjómann saman við og látið suðuna koma upp. Kryddið með salti og pipar. Þykkið með sósuþykkjara ef vill.

EFTIRRÉTTUR
Heimalagaður (Siggu Lár) ís

3 egg
3 msk. sykur
½ l þeyttur rjómi

Aðferð:
Byrjið á að þeyta rjómann og geyma hann svo í ísskáp. Hrærið síðan egg og sykur mjög vel saman, þangað til það er ljóst og létt.
Hér má nota það bragðefni sem ykkur dettur í hug, Toblerone, jarðarber, rommkúlur, Grand Marnier, bláberjasultu, engin takmörk, fer allt eftir ykkar smekk. Blandið svo varlega saman við þeytta rjómann, notið sleif og hrærið varlega saman.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir