Nú er frost á Fróni
Mikill kuldi ríkir nú á Norðurlandi vestra og verður áfram næstu daga samkvæmt spá Veðurstofunnar. Það var heldur kuldalegt á Sauðárkróki í morgun og sýndu óopinberir hitamælar hjá Fésbókarnotendum allt upp í 21 gráðu og það staðfesti sjálfvirkur mælir á Alexandersflugvelli en hann nam 20,9 gráðu frost klukkan 6 í morgun. Gera má ráð fyrir því að frostið hafi verið enn meira inn til landsins og má sjá að frostið fór í -23,6 °C á Gauksmýri í Húnaþingi.
Mynd á Fésbókinni um kuldann sem umlék fólk í morgunsárið.
Veðurstofan gerir ráð fyrir austlægri eða breytilegri átt í dag á Norðurlandi vestra, 3-8 m/s og úrkomulítið, en austan 3-10 með kvöldinu. Frost 8 til 18 stig en 2 til 8 stig á morgun.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Suðaustan 10-20 með snjókomu en síðan slyddu eða jafnvel rigningu S- og V-til en úrkomulítið NA-til fram eftir degi. Snýst í suðvestanátt með éljum V-til um kvöldið. Minnkandi frost, en hiti hiti 1 til 4 stig með suðurströndinni.
Á mánudag:
Suðvestlæg eða breytileg átt, 5-13 m/s og él, en slydda eða rigning suðaustantil. Hiti um og undir frostmarki, en hiti 0 til 5 stig suðaustantil.
Á þriðjudag:
Suðlæg eða breytileg átt 8-15 m/s og slydda eða snjókoma í flestum landshlutum, en vestlægari og él um kvöldið. Hiti um frostmark.
Á miðvikudag:
Suðvestlæg átt og él, en bjart að mestu fyrir austan. Frost 0 til 5 stig, en um frostmark við sjávarsíðuna.
Á fimmtudag:
Útlit fyrir suðaustan átt, víða bjart og fremur kalt í veðri, en vaxandi suðaustan átt síðdegis með slyddu eða snjókomu.