Nýsveinar frá FNV hljóta viðurkenningar

Laugardaginn 6. febrúar stóð Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík fyrir árlegri verðlaunaafhendingu fyrir nýsveina. Þessi viðburður fór fram við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur að viðstöddum forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðherra, forseta borgarstjórnar og fulltrúum hinna ýmsu iðngreina auk nýsveina. Veitt voru verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á sveinsprófi.

Árni Páll Gíslason, rafvirki, fékk silfurverðlaun, en iðnmeistari hans er Haraldur Jón Arason. Alls fengu fimm nemendur viðurkenningu í rafvirkjun. Sigurbjörn Vopni Björnsson, húsasmiður, fékk bronsverðlaun, en iðnmeistari hans er Björn Friðrik Svavarsson. Þá fékk Kristján Ásgeirsson Blöndal, húsasmiður bronsverðlaun, en iðnmeistari hans er Hilmar Kristjánsson. Alls fengu fjórir húsamiðir viðurkenningu. Þess skal getið að Kristján stundaði fyrri hluta námsins við FNV og lauk því við VMA.

Þeir Árni Páll og Kristján fengu að auki viðurkenningu frá Háskólanum í Reykjavík þar sem þeir fá niðurfelld skólagjöld á fyrstu námsönn við skólann.

Aðrir verðlaunahafar komu frá Tækniskólanum (8), Iðnskólanum í Hafnarfirði (2), Menntaskólanum í Kópavogi (1), Fjöltækniskólanum (1), Fjölbrautskóla Vesturlands (1), Fjölbrautaskólanum í Breiðholti (1) og Snyrtiskóla Reykjavíkur (1).

/fnv.is

Fleiri fréttir