Óþekktarormarnir farnir frá Auðunnarstöðum
Þýsku óþekktarormarnir sem dvöldu hjá þeim Júlíusi Guðna Antonssyni og Kristinu Lundberg á Auðunnarstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu kvöddu þau með þeim orðum að þau langaði að koma aftur og þá helst í réttirnar í haust en eins og sagt hefur verið frá hér á Feyki.is var tekinn uppraunveruleikaþáttur á Auðunnarstöðum sem ber heitið Ströngustu foreldar í heimi og er sýndur víða um heim og nýtur töluverðrar hylli.
Júlíus bóndi lét vel af krökkunum sem fengu að reyna ýmislegt meðan á dvöl þeirra stóð á Auðunnarstöðum . –Það voru hin ýmsu vorverkefni sem þau fengu að spreyta sig á, vinna í kringum sauðburð, vönun á ungfolum, járningar og útreiðar en einnig fóru þau í hvalaskoðun á Húsavík, segir Júlíus sem vildi meina að ekki hafi verið um neina villinga að ræða. –Þarna er verið að nálgast viðfangsefnið út frá raunveruleikanum en allt gert fyrir „sjóvið“ þar sem þetta er sjónvarpsþáttur. Krakkarnir reyndu hitt og þetta í sveitinni en hugurinn að baki þáttunum er það að sýna krökkum að þeir eigi val í lífinu, látnir fara í allt annað umhverfi og þeim sýnt hvað lífið getur boðið upp á.
Viðbrögð Braga Guðbrandssonar forstjóra Barnaverndarstofu á Pressan.is kom Júlíusi mjög á óvart en þar velti Bragi fyrir sér hvort það sé verið að gera sér mat úr erfiðleikum barnanna í hagnaðarskyni með framleiðslu á veruleikaþætti af þessu tagi. –Það kom mér á óvart hvað Barnaverndarstofa er barnaleg. Þarna var borin saman þessi þáttur þýska sjónvarpsins og verkefni sem Barnaverndarstofa hefur í samstarfi við þýskt fyrirtæki þar sem unglingum er komið í fóstur á íslenskum heimilum og Auðunnarstaðir dregnir inn í það. Þetta er allt annars eðlis, segir Júlíus sem býst jafnvel við að sjá gesti sína aftur. –Mér heyrðist á þeim að þau væru tilbúin til að koma aftur og þá sérstaklega í réttirnar í haust, a.m.k var einn upptökumannanna alveg ákveðinn að koma.