Öxnadalsheiði opnuð í kvöld

Langar raðir mynduðust beggja vegna Öxnadalsheiðar er umferð var hleypt yfir á ný. Myndir: Róbert Daníel Jónsson.
Langar raðir mynduðust beggja vegna Öxnadalsheiðar er umferð var hleypt yfir á ný. Myndir: Róbert Daníel Jónsson.

Öxnadalsheiði var opnuð á ný í kvöld eftir að hafa verið lokuð vegna veðurs í langan tíma. Róbert Daníel Jónsson, á Blönduósi, tók meðfylgjandi myndir er hann beið í um 40 mínútur í ansi langri biðröð er vegurinn yfir Öxnadalsheiði var við það að opna. Veginum hafði verið lokað á fimmta tímanum í fyrrinótt vegna veðurs og snjóþunga en opnaði síðan um kl. 21:00 í kvöld.

Aðeins var ein akrein opin til að byrja með og umferð hleypt á til skiptis Skagafjarðar- og Eyjafjarðarmegin. Í færslu Róberts á Facebook segir hann að Óskar Sólberg, sonur hans, hafi talið 159 bíla sem komu á móti þeim niður af heiðinni áður en þeir komust yfir hana.

Á vef Vegagerðarinnar segir að þrátt fyrir að vegurinn sé opinn, er þar snjóþekja og skafrenningur. Hálka eða snjóþekja er á vegum á Norðurlandi vestra og víða skafrenningur. Þungfært er á Svínvetningabraut og Þverárfjallsvegur er lokaður vegna veðurs sem og vegurinn um Almenninga milli Siglufjarðar og Fljóta. Veginum um Ólafsfjarðarmúla var lokað kl 23.00 í kvöld 22. desember vegna snjóflóðahættu.

Veðurstofan spáir norðaustan 13-18 m/s og él, en úrkomulítið inn til landsins á morgun á spásvæði Stranda og Norðurlands vestra, og allvíða skafrenningur. Minnkandi vindur í nótt, hæg austlæg eða breytileg átt á morgun, en norðaustan 5-10 m/s á annesjum. Styttir smám saman upp á morgun. Frost 0 til 6 stig.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir