Ráðskonan fékk nóg og kenndi henni að prjóna

Edda ásamt tíkinni Snotru. Eyrnabandið heklaði sú fyrrnefnda. Aðsendar myndir.
Edda ásamt tíkinni Snotru. Eyrnabandið heklaði sú fyrrnefnda. Aðsendar myndir.

Edda Brynleifsdóttir býr á Blönduósi þar sem hún rekur verslunina Hitt og þetta handverk og Vötnin Angling service. Þar má fá veiðivörur ýmiss konar ásamt góðu úrvali af handverki og er enginn svikinn af því að taka smá krók inn í gamla bæinn á Blönduósi og líta við hjá Eddu. Handverkið í versluninni kemur víða að en margt af því hefur Edda unnið sjálf enda situr hún ekki auðum höndum þegar kemur að handavinnu og er jafnan með nokkur stykki á prjónunum í einu. Edda féllst á að svara nokkrum spurningum varðandi handverk sitt.  

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?
Frá fimm ára aldri en þá fékk ég prjónakennslu hjá ráðskonu á Víðimýri í Skagafirði sem var orðin þreytt á að hafa mig hangandi yfir sér! 

Hvaða handavinnu þykir þér skemmtilegast að vinna?
Að prjóna, ég geri alla vega mest af því. Annars hef ég stundum verið að dunda við að gera tölur úr hornum og beinum og finnst það mjög gaman, svo hef ég líka gert helling af kertum í gegnum tíðina. 

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir?
Ég er að prjóna peysu fyrir konu sem dvelur í Nes listamiðstöð á Skagaströnd um þessar mundir en hún sá peysu eftir mig og vildi fá hana í öðrum litum. En ég er nú alltaf með nokkur verkefni í gangi á sama tíma svo það liggja nú tvær ef ekki þrjár aðrar peysur í pjónatöskunni sem ég gríp líka í en svo eru verðandi ullarsokkar líka skammt frá. 

Hvaða handverk sem þú hefur gert ert þú ánægðust með?
Ég hef alltaf verið mjög ánægð með þær tölur sem hef gert úr hornum og beinum og mörg af kertunum mínum. Svo hef ég alltaf haldið upp á grænan skokk sem ég prjónaði einu sinni.

Áður birt í 21. tbl. Feykis 2018

 

Peysuna hannaði Edda en munstrin í henni eru fengin úr íslensku Sjónabókinni.  Tölur unnar úr kindahorni, kúalegg og hreindýrshorni.
 
Sýnishorn af kertaframleiðslu. Græni skokkurinn er í miklu uppáhaldi hjá Eddu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir