Ræddu mikilvægi flugvalla í Norðvesturkjördæmi

Tveir varaþingmenn Norðvesturkjördæmis, þeir Bjarni Jónsson og Stefán Vagn Stefánsson, ræddu mikilvægi sjúkraflugs í Norðvesturkjördæmi undir fundarliðnum störf Alþingis í gær.

Bjarni Jónsson, varaþingmaður Vinstri grænna, ræddi sérstaklega stöðuna á Blönduósflugvelli í ljósi þeirra aðstæðna sem upp hafa komið í héraðinu undanförnum vikum þar sem vegir hafa lokast í báðar áttir í lengri og skemmri tíma og því hafi þurft að treysta á sjúkraflug. „Það hafa orðið alvarleg slys og varð hópslys fyrir skemmstu, rútuslys. En það er mjög alvarleg staða að ekki sé búið betur að búnaði á Blönduósflugvelli. Það vantar að halda búnaði við, meira að segja að stilla aðflugsljós sem kostar ekki stórar upphæðir. Það vantar GPS-kerfi. Það fara 700.000 bílar þarna um á ári,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.

Stefán Vagn Stefánsson, varaþingmaður Framsóknarflokks, tók í sama streng í ræðu sinni: „Í ljósi þess að á undanförnum árum hefur sjúkrahúsþjónusta á Norðurlandi vestra og í raun víðar á landsbyggðinni verið færð að stórum hluta í stærri sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri erum við sem á svæðinu búa orðin miklu háðari sjúkraflutningum en áður. Alvarlegri tilfelli eru í fæstum tilfellum meðhöndluð í héraði og sama á við um fæðingarþjónustu.“ Stefán benti á þá staðreynd að á Alexandersflugvelli eru ein bestu lendingarskilyrði landsins og ætti hann því að gegna mun stærra hlutverki en hann gerir í dag. Benti hann einnig á að Blönduósflugvöllur er staðsettur mjög nálægt þjóðvegi 1 og því mikilvægt öryggistæki fyrir íbúa og gesti svæðisins. „...flugvellirnir eru gríðarlegt öryggistæki fyrir íbúa á þessu svæði og mikilvægt að þeir séu þjónustaðir og viðhald þeirra sé með þeim hætti til frambúðar að á þá sé treystandi þegar neyðin er mest,“ sagði Stefán í ræðu sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir