Selatalning í níunda skipti
Selatalningin mikla fer fram á sunnudaginn, en það verður í níunda sinn sem hún fer fram. Selirnir verða taldir á Vatnsnesi og Heggstaðanesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Öllu svæðinu er svo skipt upp í mörg misstór svæði svo að allir geti fundið vegalengd við sitt hæfi. Vegalengdirnar eru 2-7 kílómetra langar. Eftir talninguna verða kaffiveitingar í boði fyrir þátttakendur.
Talningin er árleg, en á svæðinu hafa seldir verið taldir frá árinu 2007. Í fyrra voru 706 selir taldir, aðallega landselir og voru það heldur færri selir en árið 2013 þegar þeir voru 757 talsins. Í fyrra var góð mæting, en um 30 manns tóku þátt, og það voru bæði erlendir og íslenskir ferðamenn á leið um landið.
Selasetrið auglýsir á vef sínum eftir sjálfboðaliðum til þess að taka þátt í talningunni sem fer fram sunnudaginn 19. júlí. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku í síðasta lagi 15. júlí næstkomandi. Til að skrá sig og fá nánari upplýsingar má hafa samband á netfangið info@selasetur.is eða í síma 451-2345.
Taka skal fram að talningin hentar ekki börnum undir 5 ára og börn á milli 5 og 15 ára skulu verða í fylgd forráðamanna.