Skipað í öldungaráð hjá Húnaþingi vestra

Á fundi sveitarstjórnar Húnaþings vestra sem haldinn var fimmtudaginn 9. maí var lögð fram tillaga að erindisbréfi fyrir öldungaráð Húnaþings vestra ásamt tillögu að skipun í öldungaráð sem báðar voru samþykktar samhljóða. 

Öldungaráð eru samráðsvettvangur sveitarstjórnar með fulltrúum eldri borgara. Við gildistöku nýrra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga frá 1. október sl. varð sú breytinga að öldungaráði er ætlað að taka við því hlutverki sem þjónustuhópum aldraðra hefur fram til þessa verið falið að sinna og ráð fyrir því gert að öldungaráð starfi í hverju sveitarfélagi. 

Öldungaráðum er fyrst og fremst ætlað að vera formlegur vettvangur fyrir samráð við notendur um öldunarþjónustu.  Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga segir um öldungaráð: „Skipa skal öldungaráð að hverjum sveitarstjórnarkosningum loknum. Í því sitja að lágmarki þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn, þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara og einn fulltrúi frá heilsugæslunni. Ef tvö eða fleiri sveitarfélög eiga samstarf um öldrunarþjónustu, koma þau sér saman um samsetningu öldungaráðs. Sveitarstjórnir hafa því í hendi sér þann fjölda fulltrúa sem skipar ráðið hverju sinni umfram lögbundið lágmark. Ráðlegt er þó að stilla fjölda fulltrúa í hóf.“ 

Öldungaráð Húnaþings vestra skipa:
Sigrún Ólafsdóttir, Jóna Halldóra Tryggvadóttir og Guðmundur Haukur Sigurðsson, fulltrúar Húnaþings vestra, S. Kristín Eggertsdóttir, fulltrúi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, Eggert Karlsson, Sigríður Tryggvadóttir og Ólafur B. Óskarsson, fulltrúar Félags eldri borgara.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir