Skólabúðanemendur heimsækja fæðingarstað Grettis sterka
Starfið í Skólabúðunum að Reykjum í Hrútafirði fer vel af stað, að því er fram kemur á heimasíðu skólabúðanna. Nýjung í dagskrá Skólabúðanna er ferð að Bjargi í Miðfirði, á fæðingarstað Grettis "sterka" Ásmundssonar og hefur hún mælst vel fyrir.
Þar er nemendum sögð sagan af Gretti og þau fá innsýn í starf bóndans á Bjargi. „Við erum mjög ánægð með viðbrögð nemenda og kennara á heimsókninni að Bjargi. Aðrir dagskrárliðir eru að mestu óbreyttir en nú er samkennsla í náttúrufræði og stöðvaleik þar sem nemendur fá fræðslu um fjöruna og Reykjatangann, þ.e. um Héraðsskólann, hersetuna, heita vatnið og margt fleira,“ segir í frétt á heimasíðu Skólabúðanna.