Skráning á Króksamótið í gangi

Þann 11. janúar 2020 verður blásið til körfuboltaveislu á Króknum, Króksamótsins, sem ætluð er körfuboltakrökkum í 1.–6. bekk. Það er Fisk Seafood sem er aðal stuðningsaðili mótsins og er þátttökugjaldið krónur núll – semsagt frítt. Opið er fyrir skráningu til 5. janúar og eru áhugasamir hvattir til að skrá sig sem fyrst svo það gleymist nú ekki.

Mótið fer þannig fram að þrír verða í liði hjá 1. og 2. bekk en fjórir í liði hjá 3. til 6. bekk. Leiktími er 2 x 10 mínútur. Öll áhersla verður lögð á skemmtun og fjör en úrslitin eru algjört aukaatriði og því verða engin stig talin.

Gisting verður í Árskóla á Sauðárkróki fyrir þá sem þurfa. Leikmenn mfl. Tindastóls munu stjórna skemmtun í lok móts. Þá verða hamborgarar til sölu í Stólasjoppunni fyrir gesti og gangandi og pizzuveisla að hætti Hard Wok Café.

Þátttakendur á Króksamótinu fá verðlaunapening, glaðning, pizzuveislu og frítt verður fyrir keppendur í Sundlaug Sauðárkróks og á AVIS skíðasvæðið í Tindastóli þessa helgi.

Skráning fer fram á karfa-unglingarad@tindastoll.is 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir