Stjórnvöld hvött til að leggja áform um þjóðgarð á miðhálendinu til hliðar

Byggðarráð Húnaþings vestra lagði fram bókun á fundi sínum í gær þar sem stjórnvöld eru eindregið hvött til þess að leggja til hliðar fyrirliggjandi áform um lagasetningu vegna stofnunar þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Bendir byggðarráð á að fjölmörg sveitarfélög hafa gert verulegar athugasemdir við eða hafnað alfarið framkomnum tillögum nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu, sem kynntar hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda. 
 
Ennfremur segir í bókuninni: „Byggðarráð Húnaþings vestra ítrekar að samkvæmt lögum er skipulagsvald, þ.e. vinnsla og samþykkt svæðis- aðal- og deiliskipulags á höndum sveitarfélaga. Það er því ekki í verkahring ráðherraskipaðar nefndar, ráðherra eða Alþingis að hafa með beinum hætti áhrif á skipulag sveitarfélaga með því að gera tillögu að legu þjóðgarðs á miðhálendinu innan marka þeirra.

Þá leggur byggðarráð Húnaþings vestra áherslu á að hugmyndir um stofnun eins heildstæðs þjóðgarðs á miðhálendi Íslands geti ekki raungerst nema í víðtækri sátt við sveitarfélögin í landinu.“ 
 
Var tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir