Stórtónleikar í Blönduóskirkju og á Hvammstanga
Til stendur að halda stórtónleika sunnudaginn 22. apríl en söngfólk úr kórum í Austur og Vestur Húnavatnssýslum eru að æfa söngdagskrá fyrir tónleikana sem haldnir verða í Blönduóskirkju og á Hvammstanga. Á efnisskránni er messa Franz Schuberts í 9 liðum auk tónlistar útsettri af Gunnari Gunnarssyni.
„Mikill áhugi er fyrir að auka samstarf kirkjukóranna á svæðinu og er þetta verkefni liður í þeirri viðleitni. Dagskrá þessi er metnaðarfull og verkefnið krefjandi fyrir stjórnendur og söngfólk og gefst hér kjörið tækifæri fyrir unnendur góðrar tónlistar að bregða sér á spennandi tónleika. Því er um að gera að taka daginn strax frá,“ segir á Húna.is.
Stjórnendur kóranna eru Sólveig Sigríður Einarsdóttir, Sigrún Grímsdóttir og Pálína Fanney Skúladóttir en sr. Sveinbjörn Einarsson verður kynnir. Dagskráin verður nánar auglýst þegar nær dregur.