Tengsl atvinnulífs og atvinnuþróunar styrkt
Í gær endurnýjuðu SSNV-Atvinnuþróun og Háskólinn að Hólum þjónustusamning þar sem kveðið er á um að SSNV-Atvinnuþróun annist stundakennslu við ferðamálabraut.
Samstarfið um stundakennsluna hófst í fyrra og þótti gefa góða raun.
Markmiðið með aðkomu SSNV-Atvinnuþróunar er að styrkja tengsl atvinnulífs og atvinnuþróunar við skólann og nemendur hans.
,,Samstarf nemenda og fyrirtækja um ákveðin verkefni á að geta nýst báðum aðilum vel. Þá fá nemendur að glíma við raunhæf verkefni. Fyrirtækin hafa líka tækifæri til að kynna starfsemi sína og fá ferska sýn á viðfangsefnin.
Ég held að námið verði fyrir vikið bæði hagnýtara og skemmtilegra. Þó fyrirlestrarformið sé auðvitað gott með, er tilvalið að hafa fjölbreytni í kennslunni og auka virkni og frumkvæði nemenda“, segir Katrín María sem annast kennsluna fyrir hönd SSNV.