Það er ekki hægt að hlusta á allar mömmur á Spotify / ELSA RÓBERTS

Elsa Róberts klár í Hárið. AÐSEND MYND
Elsa Róberts klár í Hárið. AÐSEND MYND

Nafn Elsu Rutar Róbertsdóttur datt alveg óvart í fang Feykis þegar verið var að leita að fórnarlömbum í Tón-lystina. Eftir smá nöldur ákvað hún að takast á við verkefnið. Elsa, sem er fædd 1981, býr á Norðurbrautinni á Hvammstanga og það er alveg slatti af tónlistarhæfileikum í ættinni; þannig hafa bræður hennar, Júlíus og Þorsteinn báðir svarað Tón-lystinni fyrir nokkru síðan og Elsa er því þriðja barn hjónanna Hafdísar og Róberts á Hvalshöfða til að svara þættinum. „Ég ólst upp í Hrútafirði, fyrst á Borðeyri en síðan Reykjaskóla. Eftir að hafa prófað að búa í Kópavogi í smá tíma fluttist ég aftur norður og hef búið á Hvammstanga síðan 2006,“ segir hún.

Spurð út í kunnáttu á hljóðfæri svarar Elsa: „Ég lærði á blokkflautu í tónmennt í grunnskóla eins og tíðkaðist á þeim tíma og lærði svo á píanó í mörg ár í Tónlistarskóla Húnaþings vestra, skipti svo yfir á gítar einn vetur og prófaði líka bassa eina önn. Fyrir nokkrum árum keypti ég mér ukulele og lærði að glamra á það með því að horfa á youtube myndbönd og googla grip. Þannig að það má segja að ég hafi fiktað í mörgum hljóðfærum.

Helsta tónlistarafrek mitt er án efa þátttaka í uppsetningu á söngleiknum Hárinu með Leikflokki Húnaþings vestra árið 2019. Sýningin var valin athyglisverðasta áhugaleiksýningin það ár og var sett upp á stóra sviði Þjóðleikhússins sumarið 2019. Í kjölfar sýningarinnar var gefinn út geisla-diskur með öllum lögum sýningarinnar og jafnframt var tónlistin gefin út á Spotify. Þegar ég þarf að sanna fyrir unglingssyni mínum að ég sé soldið kúl þá bendi ég honum á að hann geti hlustað á mig syngja á Spotify – það eru ekki allar mömmur sem geta státað af því!

Til annarra tónlistarafreka má telja söng með kirkjukór Hvammstanga en ég hef sungið með honum í nokkur ár.

Skemmtilegasta tónlistartengda afrekið mitt – fyrir utan Hárið – var þegar ég kom fram á tónleikunum Mello músíka, sem haldnir eru í tengslum við bæjarhátíðina Eldur í Húnaþingi, með Júlíusi bróður mínum. Fyrir mig var þessi framkoma liður í því að stíga út úr þægindahringnum og mér þykir óendanlega vænt um að hann skyldi hafa tekið þátt í þessu með mér.“ En skellum okkur í spurningarnar...

Hvaða lag varstu að hlusta á? „Written All Over Your Face með Louis Tomlinson.“

Uppáhalds tónlistartímabil? „Hjartað tekur alltaf smá kipp þegar ég heyri 90’s tónlist.“

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? „Harry Styles fær mig til að sperra eyrun þessa dagana.“

Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? „Flowers með Miley Cyrus.“

Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvað lag tækjuð þið? „Væri til í að taka dúett með Þorsteini bróður mínum og syngja eitthvert countrylag eftir hann.“

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? „Það var hlustað á alls konar tónlist á mínu heimili en minningin um að hlusta á Kim Larsen og Rúnar Þór á fjölskylduferðalögum er sterkust.“

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? „Fyrstu geisladiskarnir sem ég keypti voru Pottþétt ‘95 og Teika með Bubba og Rúnari – GCD.“

Hvaða græjur varstu þá með? „Þá var með ég glænýju ferm-ingargræjurnar mínar sem ég man ekkert hvaða tegund voru.“

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? „Glory Box með Portishead.“

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? „Það er ekkert lag sem eyðileggur fyrir mér daginn og sjaldan sem tónlist fer óstjórnlega í taugarnar á mér en ég er ekkert að elska Baby Shark til dæmis.“

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? „Ég myndi skella I’m Gonna Be (500 miles) með The Proclaimers og Sonic Boom Boy með Westworld á fóninn, sem er sennilega ástæðan fyrir því að ég er aldrei beðin um að sjá um tónlist í partýum.“

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? „Hljóðið í kaffivélinni minni.“

Hvaða Bítlalag hefðir þú vilj-að hafa samið? „Blackbird, bæði vegna þess að melódían er dásamleg og svo er boðskapurinn magnaður.“

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? „Ég færi á tónleika með Pink og tæki Elísabetu Sif, samstarfskonu mína og vinkonu, með mér vegna þess að ég veit að henni finnst Pink jafn frábær og mér. Ég held að okkur væri nokkuð sama hvar í heiminum tónleikarnir væru haldnir.“

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkomin með bílpróf? „Það var pottþétt eitthvert mixtape með því allra heitasta á þeim tíma.“

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? „Sigga Beinteins af því að hún er geggjað töff.“

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli?Mutter með Rammstein.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir