Tónlistarskóli Húnaþings vestra fagnar 50 ára afmæli

Mynd: hunathing.is
Mynd: hunathing.is

Tónlistarskóli Húnaþings vestra fagnaði 50 ára afmæli sínu síðastliðinn laugardag með dagskrá og veglegri veislu að hætti Húsfreyjanna á Vatnsnesi. Samkoman var haldin í  Félagsheimilinu á Hvammstanga.

Upphafið að stofnun skólans má rekja til þess er Steingrímur Sigfússon, sem ættaður var frá Kolbeinsá í Hrútafirði, kom í Húnaþing vestra árið 1968 til að æfa bændakór sem koma átti fram á bændahátíð í Víðihlíð það ár en einnig æfði hann kvennakór meðan hann dvaldi þar. Steingrímur dvaldi hjá hjónunum Ingibjörgu Pálsdóttur og Sigurði Eiríkssyni á Hvammstanga og veitti hann því athygli hve margt hæfileikaríkt tónlistarfólk byggði svæðið og ræddi hann hugmynd sína að stofnun tónlistarskóla við Ingibjörgu. Fór hún af stað og fékk til liðs við sig oddvita allra sveitarfélaganna sjö í sýslunni sem sameinuðust um stofnun skólans árið 1969.

Frá upphafi hafa fimm skólastjórar starfað við skólann, þau Eyjólfur Ólafsson, Einar Logi Einarsson, Guðjón Pálsson, Elínborg Sigurgeirsdóttir og Louise Price sem tók við starfinu nú í haust af Elínborgu sem verið hafði skólastjóri í 35 ár.

Ingibjörg Pálsdóttir, sem eins og áður segir var einn af aðalhvatamönnunum að stofnun skólans, barðist meðal annars fyrir því að skólinn eignaðist sitt eigið húsnæði sem varð árið 1984 þegar sveitarfélögin keyptu húsið Sólland sem hýst hefur starfsemi skólans síðan þá. Nú er í smíðum viðbygging við Grunnskóla Húnaþings vestra en þangað mun tónlistarskólinn flytja eftir tvö ár og verður hann þá í fyrsta skipti til húsa í sérhönnuðuð húsnæði sem lagað er að þörfum skólans og nemendanna sem hann sækja.

Margir kennarar hafa kennt við skólann en þó lengst allra, auk Elínborgar, Ólöf Pálsdóttir frá Bessastöðum en hún er einmitt systir Ingibjargar Pálsdóttur. Var þeim öllum færður þakklætisvottur fyrir framlag þeirra til skólans.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra skipaði nefnd til að sjá um undirbúning og framkvæmd afmælishátíðarinnar. Í henni sátu Jóhann Albertsson, Elín Lilja Gunnarsdóttir og Louise Price. Voru þeim, ásamt öllum þeim sem að undir undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar komu sem og þeim sem heiðruðu skólann með tónlistaratriðum, færðar þakkir fyrir þeirra framlag til afmælishátíðarinnar.

Á heimasíðu Húnaþings vestra má sjá myndir frá afmælishátíðinni og lesa nánar um dagskrána.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir