Tvö tonn af kartöflum í skóinn hjá landsins börnum

Jólasveinar landsins hafa staðið í ströngu upp á síðkastið. Mynd:Facebooksíðan Jólasveinninn.is
Jólasveinar landsins hafa staðið í ströngu upp á síðkastið. Mynd:Facebooksíðan Jólasveinninn.is

Íslensku jólasveinarnir höfðu í nógu að snúast fyrir þessi jól líkt og vanalega og væntanlega þekkist viðlíka annríki meðal stéttarinnar hvergi annars staðar í heiminum. Meðan jólasveinar annarra landa þurfa aðeins að mæta í vinnuna eina nótt á ári þurfa þeir íslensku að gefa börnum í skó þrettán nætur og flækjast svo um á jólaböllum næstu dagana allt fram til þrettándans þegar þeir loksins hafa allir tínst til síns heima. Til allrar hamingju eru íslensku sveinarnir margir og deilist því erfiðið á margra herðar.

Íslandsstofa hefur tekið saman og birt nokkrar skemmtilegar staðreyndir viðivíkjandi sveinunum rauðklæddu og telur það yfir allan vafa hafið að við Íslendingar eigum duglegustu jólasveina í heimi. Þar kemur fram að skór í gluggum landsins barna séu 45.500 talsins og heildarfjöldi skógjafa 591.500. Á hverri mínútu gefa sveinarnir í 95 skó eða 5.688 á klukkustund. Verðmæti skógjafanna er talið vera 295 milljónir króna. Mandarínur eru algengar gjafir í skó enda fara þær vel í poka og eru þægilegar í meðförum. Munu 4,8 tonn af mandarínum fara í skógjafir jólasveinanna þetta árið. Kartöflubændur njóta einnig góðs af þessum sið en greiningardeild Íslandsstofu áætlar 3% óþekkt meðal barna svo kartöflugjafir í skóinn nema í heildina tveimur tonnum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir