Velferðarsjóði Húnaþings vestra færð vegleg gjöf

Forsvarsmenn sjóðsins ásamt Ólöfu. Frá vinstri: Magnús Magnússon, Elísa Sverrisdóttir, Ólöf Ólafsdóttir og Jenný Þórkatla Magnúsdóttir. Mynd: Hunathing.is
Forsvarsmenn sjóðsins ásamt Ólöfu. Frá vinstri: Magnús Magnússon, Elísa Sverrisdóttir, Ólöf Ólafsdóttir og Jenný Þórkatla Magnúsdóttir. Mynd: Hunathing.is

Velferðarsjóði Húnaþings vestra barst í gær vegleg gjöf þegar Ólöf Ólafsdóttir í Tannstaðabakka færði sjóðnum peningagjöf að upphæð 504.000 krónur. Þetta er annað árið í röð sem Ólöf lætur töluverða fjármuni af hendi rakna til sjóðsins en peningarnir eru andvirði bútasaumsteppa sem Ólöf hefur unnið og selt, m.a. á jólamarkaði í Félagsheimilinu á Hvammstanga í byrjun desember.

Í frétt á vef Húnaþings vestra segir að stjórn Velferðarsjóðs sé bæði hrærð og glöð yfir þessu göfuga framtaki Ólafar og þakklát fyrir þann fallega hug sem býr að baki. 

Velferðarsjóði Húnaþings vestra er ætlað að styðja við einstaklinga og fjölskyldur sem búsettar eru í sveitarfélaginu. Hægt er að sækja um í velferðarsjóðinn núna fyrir jólin og eiga þeir aðilar sem glíma við fjárhagsvanda rétt á að sækja þar um.

Þau fyrirtæki eða einstaklingar sem hafa áhuga á að leggja sitt af mörkum geta lagt inná reikning Velferðarsjóðs Húnaþings vestra á reikningsnúmerið 0159-15-380189  kt: 601213-0440.

Þessir aðilar svara fyrir hönd sjóðsins:
Elísa Sverrisdóttir fyrir hönd Rauða krossins: elisasverris@gmail.com
Jenný Þórkatla Magnúsdóttir fyrir hönd Fjölskyldusviðs: jenny@hunathing.is
Magnús Magnússon fyrir hönd kirkjunnar: srmagnus@simnet.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir