Vilja að sveitarfélagið yfirtaki allan hlut í Félagsheimilinu á Hvammstanga

Félagsheimilið á Hvammstanga. Mynd:FE
Félagsheimilið á Hvammstanga. Mynd:FE

Á fundi sveitarstjórnar Húnaþings vestra í síðustu viku var fjallað um eignarhald á Félagsheimilinu á Hvammstanga og framtíð þess. Í bókun fundarins kemur fram að undanfarnar vikur hafi verið unnið að því í samstarfi við lögfræðing og endurskoðanda sveitarfélagsins að það yfirtaki stjórn félagsheimilisins í samræmi við stefnu meirihluta sveitarstjórnar.

Sveitarfélagið er eigandi að 86% hlut í húsinu en hin 14 prósentin eru í eigu Kvenfélagsins Bjarkar og Ungmennafélagsins Kormáks. Þar sem ljóst er að félögin tvö hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að ráðast í nauðsynlegt viðhald og endurbætur á húsinu í hlutfalli við eignaraðild er hugmyndin sú að þau afsali sér sínum hlut í húsinu en fái um leið samning um afsláttakjör af leigu til næstu 25 ára. Með þessum hætti yrði félagsheimilið eins og hver önnur B hluta stofnun sveitarfélagsins. „Þetta er talin besta færa leiðin til að hægt sé að fara í uppbyggingu og lagfæringu á húsnæði félagsheimilisins en hætt er við að annars tefjist sú vinna um ókomin ár.  Sveitarstjórn samþykkir að oddvitar beggja lista og sveitarstjóri ræði við stjórnir meðeigenda með ofangreind markmið að leiðarljósi,“ segir í bókun fundarins sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir