Að vera Norðlendingur - Áskorandinn Jón Þorvaldur Heiðarsson

Hvað er það að vera Norðlendingur?  Ég er fæddur og uppalinn í Húnavatnssýslu og bý nú í Eyjafirði. Ég dvaldist einn vetur í Skagafirði og einn vetur í Þingeyjarsýslu. Ég er Norðlendingur. Norðurland var áður stærsti landsfjórðungurinn, með flesta íbúana er mér sagt. Þar lágu jafnframt völdin á Íslandi á tímabili, að einhverju leyti má segja að Íslandi hafi verið stjórnað frá Norðurlandi, a.m.k. stjórnuðu Norðlendinga sér sjálfir.

Þetta var á tímum kaþólsku kirkjunnar þegar völdin lágu hjá henni. Það voru tveir biskupsstólar, fráleitt var annað en biskup væri á Norðurlandi. Það var bara spurning hvar norðlenski biskupsstóllinn yrði staðsettur. Einhvern veginn komu Norðlendingar sér saman um að hann yrði í Skagafirði en þó nánast eins nálægt Eyjafirði og hægt var. Á Hólum í Hjaltadal, þeim skjólsæla stað. Í gegnum tíðina voru þetta aðsópsmestu héruðin í landsfjórðungnum, liggjandi hlið við hlið á miðju Norðurlandi. Skagfirðingar og Eyfirðingar, og ekki alltaf í sátt. Fyrirgefið Þingeyingar, ég veit að þið voruð mesta forystuhéraðið á Norðurlandi á tímabili þegar þið stofnuðuð fyrsta kaupfélagið og voruð að springa af menningarstarfsemi.

En af hverju gátum við Norðlendingar ekki byggt á þessu? Af hverju varð ekki þéttbýlismyndun á Hólum? Af hverju gerðist ekki það sama og annarstaðar í Evrópu þar sem borgir mynduðust kring um dómkirkjur? Hugsið ykkur ef það hefði myndast smáborg í Skagafirði, inni í Hjaltadal. Hver hefði þá orðið saga Norðurlands? En það gerðist ekki. Var það vegna þess að biskupsstóllinn var ekki í miðjum Skagafirði heldur í jaðrinum, á endastöð inni í Hjaltadal? Nei, líklega ekki því það myndaðist ekki heldur þéttbýli í kring um Skálholt sem var þó á miðju Suðurlandi.

Við misstum af tækifærinu, okkur láðist að byggja nægilega upp til framtíðar á meðan við höfðum völdin í okkar höndum. Síðan komu siðaskiptin og völdin voru tekin af kirkjunni og hún mergsogin af veraldlega valdinu, dönsku krúnunni sem valdi sér valdamiðstöð hinu megin á landinu. Smáborgin á Norðurlandi varð samt til um síðir en þá í Eyjafirði og of seint til að vera nægjanlegt vægi við valdið sem ákveðið var að staðsetja í Reykjavík.

Förum nær nútímanum. Eitt versta augnablik í sögu Norðurlands var þegar þessum andskotum (afsakið orðbragðið) tókst að skipta okkur í tvennt. Austurland var eitt kjördæmi sem og Suðurland og Vesturland.  Af hverju máttum við ekki vera eitt kjördæmi? Af hverju þurfti að skipta okkur í tvennt?  Af hverju máttum við ekki bara eiga 11 þingmenn í einu kjördæmi í stað fimm á Norðurlandi vestra og sex á Norðurlandi eystra.  Var það vegna þess að þá yrðum við of sterk?  Eða grófum við okkar eigin gröf, var aldagamall rígur Skagfirðinga og Eyfirðinga hér að verki með sín lamandi áhrif. Voru þeir hoppandi stoltir og hamingjusamir að vera í sínu hvoru kjördæminu?

Þetta versnaði enn frekar þegar kjördæmin voru stækkuð. Þá var tækifærið notað til að setja hluta Norðurlands með Vesturlandi og Vestfjörðum en hinn hlutann með Austurlandi. Það gengur vel að mola norðlensku ímyndina niður. Að Norðlendingar eigi eitthvað sameiginlegt, samsami sig með hverjum öðrum. 

En ég hvet ykkur til andstöðu, verum Norðlendingar áfram þótt við höfum misst af ýmsum tækifærum. Kannski mun okkar tími koma aftur. Ég ætla að minnsta kosti að vera Norðlendingur áfram, helst þangað til ég fer í gröfina.

Magnús Björnsson frá Hólabaki er búinn að taka áskorun minni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir