„Það væri frekar dapurt líf ef ekki væri tónlist og söngur“ | KOLBRÚN GRÉTARS
Það er Kolbrún Erla Grétarsdóttir á Úlfsstöðum í Blönduhlíð sem svarar Tón-lystinni að þessu sinni. Hún segist vera af hinum óstýriláta 1975 árgangi, „... sennilega eftirminnilegasti árgangur Varmahlíðarskóla þó ég segi sjálf frá. Kolbrún er dóttir Grétars Geirssonar frá Brekkukoti og Jónínu Hjaltadóttur frá Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal. „Alin upp á Hólum í Hjaltadal – í dalnum sem Guð skapaði,“ bætir hún við.
Þegar hún er spurð út í hvaða hljóðfæri hún spili á segist hún lengst af hafa spilað á píanó en einnig kíkt aðeins á þverflautuna. Helsta afrekið á tónlistarsviðinu segir hún án efa vera Sönglög á Sæluviku. „Ég fékk að syngja þar með frábæru tónlistarfólki og fylgja Stefáni Gíslasyni í öllum þeim verkefnum, Ég mun aldrei gleyma því,“ segir Kolbrún.
Hvað er á döfinni? „Hljómbrá, tríóið mitt [og Gunnu í Miðhúsum og Írisar Olgu í Flatatungu], ætlar að halda tónleika 15. nóvember næstkomandi í Miðgarði kl. 20:00 til styrktar Krabbameinsfélagi Skagafjarðar. Með okkur koma fram frábærir söngvarar af yngri kynslóðinni. Lára Sigurðardóttir, Jóel Agnarsson, Símon Borgþórsson og Halldóra Árný dóttir mín. Málefnið er okkur öllum mjög hugleikið, krabbamein hefur komið við fjölskyldur okkar allra í tríóinu og því var það okkur mikið hjartans mál að styðja við félagið eins og kostur er.“
Hvaða lag varstu að hlusta á? Is This Love með Alison Moyet. Og auðvitað öll hin lögin sem eru á dagskrá 15. nóvember. Það þarf að æfa þetta – það æfir sig ekki sjálft.
Uppáhalds tónlistartímabil? Alltaf 80´s, það bara er svo mikið fjör og danstónlist, það er nausynlegt að dansa og svo komst ég ekki hjá því að meðtaka það frá eldri systrum mínum.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Vel sungin og vel samin lög. Með fallegum texta. Textinn þarf að hafa boðskap og vera saga. Þoli mjög illa eitthvað endurtekið og þegar það er bara verið að bulla í laginu og muldra í textaflutningum. Það verður að heyrast hvað er verið að syngja.
Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? Snjóað í sporin með Króla. Króli hefur sótt í sig veðrið. Ef það er eitthvað sem Króli gerir þá er það að syngja skýrt.
Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvað lag tækjuð þið? Það eru mjög mörg dúettalög á óskalistanum en það sem er mest spennandi akkúrat núna er Grande Amore með Símoni og Jóel, þeir eru algjörir sönggullmolar, væri glæsilegt að fá að gera það með Sinfó nord, Þá kannski myndi ég ryfja upp klassísku söngröddina mín sem ég kom með út úr tónlistarskólanum þarna um árið. En sinnti svo ekki. Og auðvitað syngja með dætrum mínum, þær eru allar söngkonur. Allar aldar upp við að láta í sér heyra og gera það vel og fallega.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Klassík, karlakórar, kvartettar, Bergþóra Árnadóttir, SG bílakassetturnar, áttum líklega allar þær spólur. Þær voru notaðar til að þagga niður í okkur í bílnum þegar friðurinn var úti, þá létu mamma og pabbi okkur syngja. En hjá ömmu var það Haukur Morhtens, Bubbi Morthens og Björgvin Halldórsson. Síðan Queen, ABBA og HLH flokkurinn hjá bræðrum mömmu.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Whitney Houston, appelsínugula platan. Kann hana utan að.
Hvaða græjur varstu þá með? Mamma keypti einhverjar svakalegar Pioneer græjur af tollinum sem náðust í einhverju smygli. Þær voru svakalegar. það mátti alveg hækka vel í þeim. En kannski höfðu nágrannarnir ekkert sérlega gaman að því. En ég hafði það.
Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Greatest Love Of All með Whitney. Og hækkað í botn og kraftsungið með.
Hvaða lag fær þig til að skipta um stöð eða slökkva á útvarpinu? Úff..þori varla að segja það en læt það vaða. Undir bláhimi. Biðst bara afsökunar hér og nú. En það er búið að ofspila það. Maður má hvergi koma utan héraðs þá vilja allir spila þetta lag. Ég er bara alveg búin að fá nóg af því.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Alltaf 80´s bara, það getur ekki klikkað. Mitt fólk kann þetta allt og það fer af stað feikna stuð.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Cavalleria Rusticana: intermezzo, gífurlega fallegt lag.
Hvaða Bítlalag hefðir þú viljað hafa samið? Ég er ekki Bítla-aðdáandi svo ég verð að fá að segja pass hér. En ef ég hefði viljað semja lag þá væri það My Way, það bara er eins og talað út úr mínu hjarta. Að gera hlutina á minn hátt. Það á við mig.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Í dag væri það Adele í Royal Albert Hall. Þá er maður nógu nálægt og getur notið. Ég tæki Gunnu vinkonu mín í Miðhúsum með. Henni er alveg sama þó ég myndi syngja með allan tíman. Hún myndi líklega gera það líka. Svo er hún bara svo svakalega hress og skemmtileg.
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Sálin hans Jóns míns, Stjórnin, SSSól og auðvitað Herramenn. Og svo safndiskarnir sem áttu markaðinn þá. Maður þurfti að kunna öll þessi lög þegar næsta ball í Miðgarði var væntanlegt. Það þurfti að taka upp á spólu til að spila í mínum bíl. Þannig að það var feykna vinna að taka upp heilu plötunar á kassettu til að eiga í bílnum. En þetta var tíðarandinn þá.
Er eitthvað lag sem fær þig til að tárast eða snertir streng í hjartanu? Vetrarsól sem Óskar Pétursson söng í Hörpu fyrir þremur árum. Þá sat ég og grét uppi á svölunum. Svo verð ég að bæta við Litfríð og ljóshærð með Sigfúsi í Álftagerði. Þessi undrarödd hreyfir við öllum.
Hvaða tónlistarmenn hafa haft mest áhrif á þig? Villi Vill og Ellý, þau voru þjóðargersemi. Villi kom víst í stúdíó og tók upp lag og það var yfirleitt bara ein taka. Hann kom æfður og bara gekk í málið og var ekkert að slóra við þetta. Ellý var einstök, röddin var svo glæsileg. Hversu mikil gæfa var að þau systkynin skildu fara í tónlist.
Hvaða plata hefur skipt mestu máli í þínu lífi og hvers vegna? Ætli það séu ekki Whitney Houston plöturnar, þessi appelsínugula og þessi bláa. Man mest eftir mér söngæfa mig margar vikur og mánuði með þessum plötum. Að syngja og hafa tónlist alla daga eru mjög mikilvægir hlutar af mínu lífi. Það væri frekar dapurt líf ef ekki væri tónlist og söngur.
Sex mest spiluðu lögin í síma Kollu
Þetta líf er allt í læ / Una Torfa og Sigurður Guðmundsson
Snjóað í sporin / Króli
Síðasti dansinn / Erna Gunnars og Björgvin Halldórs
The John Dunbar Theme / úr Dansar við úlfa
Vorið kom / Hauki Morthens
Paloma Blanca / George Baker (kemur manni alltaf í stuð)
