Bændur hafa of mikið að gera og vinnuálagið er ójafnt

Sauðfé. MYND: ÓAB
Sauðfé. MYND: ÓAB

Bændablaðið sagði frá því í gær á heimasíðu sinni að nýverið var lokið við rannsókn á líðan bænda. Þar kemur fram að einkenni þunglyndis, kvíða og streitu séu algengari hjá bændum, samanborið við aðrar stéttir.

Helstu niðurstöður eru þær að bændur upplifa að jafnaði meiri einkenni streitu og þunglyndis en aðrir Íslendingar á vinnumarkaði. Þá eru hlutfallslíkur bænda á að flokkast með alvarleg einkenni þunglyndis og streitu samanborið við eðlileg einkenni þunglyndis og streitu hærri en hjá samanburðarhópnum. Einnig sáust vísbendingar um að bændur sem hafi áform um flutninga eða atvinnuskipti upplifi meiri einkenni þunglyndis, kvíða og streitu en þeir bændur sem hafi engin slík áform.

Alltaf mikið að gera

Í rannsókninni var seigla íslenskra bænda metin en ekki er hægt að segja til um hvort hún sé meiri eða minni en annarra út frá þessari könnun einni og sér. Hins vegar virðist meðalskor bænda á seiglukvarðanum heldur lágt í samanburði við meðalskor sem komið hafa fram í öðrum rannsóknum þar sem sami kvarði er notaður. Vinnuaðstæður bænda voru skoðaðar með tilliti til vinnuálags. Þar sást að stór hluti bænda telji sig oft eða alltaf hafa of mikið að gera og er hlutfallið hærra en hjá samanburðarhópum. Þá telji bændur vinnuálagið ójafnara og að þeir þurfi að vinna á miklum hraða.

Fyrsta könnun af þessu tagi

Rannsóknin var unnin upp úr netkönnun sem lögð var fyrir félagsmenn í Bændasamtökum Íslands. Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) vann rannsóknina eftir að hafa hlotið til þess styrk úr Byggðarannsóknarsjóði. Niðurstöður netkönnunarinnar voru bornar saman við rannsóknina Heilsa og líðan Íslendinga frá 2022, sem embætti Landlæknis stendur fyrir á fimm ára fresti. Þetta er í fyrsta skipti sem könnun af þessu tagi er framkvæmd meðal bænda og því ekki hægt að draga ályktanir um þróun andlegrar heilsu stéttarinnar.

Rannsóknina leiddi Bára Elísabet Dagsdóttir hjá RHA, en samstarfsaðilar voru Bændasamtök Íslands og Gísli Kort Kristófersson hjá Háskólanum á Akureyri. Frá þessu var greint á heimasíðu RHA, en þar er jafnframt hægt að nálgast skýrsluna í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir