Fjármunum úthlutað til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum

Meðal verkefna á verkefnaáætlun Landsáætlunar er uppbygging við Hvítserk. Mynd:RÁ
Meðal verkefna á verkefnaáætlun Landsáætlunar er uppbygging við Hvítserk. Mynd:RÁ

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerðu í dag grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2020.

Í frétt á vef Stjórnarráðsins segir að samtals sé nú úthlutað rúmum 1,5 milljarði króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem geri kleift að halda áfram því mikilvæga verkefni að byggja upp innviði á ferðamannastöðum.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir styrki til 33 verkefna um allt land árið 2020 sem nema samtals 501,5 milljónum króna. Eitt verkefni á Norðurlandi vestra hlaut styrk en það eru Drangeyjarferðir ehf. sem fá 13 milljóna króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að smíða og styrkja flotbryggju í Drangey. Bryggjan brotnaði í óveðri. Hana þarf að styrkja á ýmsan máta, setja niður festur þannig að haldi, steypa undir viðlegukant sem fyrir er og styrkja. Smíða landganga bæði frá flotbryggju og einnig frá viðlegukanti, einnig að setja upp handrið til að tryggja öryggi ferðalanga.  Mikilvægt öryggisverkefni á sögufrægum og áhugaverðum ferðamannastað. Styrkur er veittur með því skilyrði, að tryggt sé óhindrað aðgengi allra að flotbryggjunni.

Fimm verkefni fá úthlutun úr verkefnaáætlun Landsáætlunar 2020-2022, samtals að upphæð 33,8 milljónir króna. Þau eru: 

  • Borgarvirki: Lokaáfangi uppbyggingar, 3.000.000 kr.
  • Hegranesþing í Skagafirði: Verndaraðgerðir og afmörkun minja, 1.000.000 kr.
  • Hvítserkur: Innviðauppbygging í samráði við landeigendur og sveitarfélög, 18.000.000 kr.
  • Þrístapar: Lagfæringar minja og bætt upplýsingagjöf um fornminjar á staðnum, 2.500.000 kr.
  • Örlygsstaðir í Skagafirði: Verndaraðgerðir, afmörkun minja, hönnun og göngustígur frá bílastæði að minjasvæði, 9.300.000 kr.

Á vef Stjórnarráðsins er nánar fjallað um úthlutun fjármuna til náttúruverndar á ferðamannastöðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir