Föstudagurinn langi

Kristur á krossinum, hluti af altaristöflu eftir Jan van Eyck (1390-1441).
Kristur á krossinum, hluti af altaristöflu eftir Jan van Eyck (1390-1441).

Föstudagurinn langi er síðasti föstudagur fyrir páska. Þá minnast kristnir menn píslargöngu Jesú, krossfestingar hans og dauða á krossi, en samkvæmt guðspjöllunum gerðust þessir atburðir á síðasta föstudag fyrir páska. Þá var Jesú krossfestur ásamt tveimur ræningjum sem höfðu einnig verið dæmdir til krossfestingar.

Af hverju heitir föstudagurinn langi þessu nafni?
Þeirri spurningu er reynt að svara á Vísindavefnum en er eitt af því sem er ekki vitað með vissu. Eðlilegasta skýringin er sú að dagurinn hefur vissulega verið býsna langur í lífi Krists samkvæmt píslarsögunni og endaði með langri pínu á krossinum. Önnur skýring er að kaþólskum mönnum fyrr á öldum hefur þótt dagurinn langur. Þeir höfðu þá fastað í margar vikur og við bættist að messur voru óvenju langar þennan dag.

Lengi fram eftir öldum hét dagurinn jafnframt öðru nafni á íslensku, langafrjádagur. Orðhlutinn frjá í því orði er skyldur goðaheitunum Frigg og Freyju en þó öllu heldur þýsk-ensku ástargyðjunni Fría. Dagurinn heitir svipuðum nöfnum í öðrum Norðurlandamálum og er þau talin vera fengin úr fornensku þó að annað orð sé núna haft um þennan dag í ensku (Good Friday).

Föstudagurinn langi er mesti sorgardagur kirkjuársins og ber allt helgihald vott um það. Þannig hafa hvers konar skemmtanir löngum verið bannaðar þennan dag en orðið skemmtun er einmitt dregið af skammur og merkir í rauninni eitthvað sem styttir mönnum stundir. Hins vegar hefði það varla borið vitni um sanna guðrækni að setja fram eins konar nöldur um lengd dagsins í nafni hans!

Hugsanlegt er að merking orðsins langur í þessu samhengi sé ekki endilega sú sem við erum vönust. Orðið er stundum notað um eitthvað leiðinlegt, erfitt eða mótdrægt, og eins gæti það í þessu sambandi tengst orðinu löngun eða því að lengja eftir einhverju.

Föstudagurinn langi hefur heitið ýmsum nöfnum á latínu. Heitið dies passionis vísar til pínu Krists en heitið bona sexta feria merkir eiginlega góði sjöttidagur og minnir á að krossdauðinn hafi verið góðverk mönnunum til handa. Enska heitið Good Friday, sem á sér einnig samsvörun í hollensku, er byggt á þessu latneska heiti. Þriðja heitið var parasceve sem er komið úr grísku og merkir undirbúningur. Það var tekið upp í grísku frá Gyðingum en þeir nota einmitt föstudaginn til að undirbúa sabbatsdaginn.

Heimild og lesefni:
Árni Björnsson, Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning, 1993.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir