Fyrsti í sköfu á Norðurlandi vestra

Haustið er farið að minna duglega á sig með dimmum kvöldum og lækkandi hita yfir nóttina þannig að kartöflugrös fara að falla og berin í stórhættu. Íbúar á Norðurlandi vestra þurftu margir hverjir að grípa í sköfuna í morgun og hreinsa bílrúður áður en lagt var af stað þó frostið hafi kannski ekki verið neitt verulegt.

Á vef Veðurstofu Íslands sést að hitinn fór niður í -3,1 °C á Gauksmýri klukkan fjögur í nótt en náði vart einni gráðu í mínus á Blönduósi og Sauðárkróki, -0,8 °C á hvorum stað þegar kaldast var.

Útlitið er þó bjart næstu daga á spásvæði Stranda og Norðurlands vestra þar sem gert er ráð fyrir norðlægri átt, 3-5 m/s, bjart með köflum og hiti áætlaður 3 til 8 stig. Suðvestlæg átt 3-8 á morgun og lítilsháttar rigning. Hiti 7 til 12 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:
Suðlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og rigning S- og V-lands, annars þurrt að kalla. Úrkomuminna um kvöldið. Hiti 7 til 13 stig.

Á föstudag:
Vestlæg átt 3-10 m/s og væta með köflum víða um land. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:
Gengur í stífa suðvestanátt með rigningu, en lengst af þurrt NA-lands. Hlýnar, einkum N-til.

Á sunnudag:
Suðvestanátt með skúrum, en þurrt að kalla A-lands. Hiti 7 til 13 stig. Norðaustlæg átt á Vestfjörðum og heldur svalara.

Á mánudag:
Útlit fyrir norðlæga átt með vætu og kólnandi veðri fyrir norðan, en skúrir og milt sunnan heiða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir