Gestum fjölgar ár frá ári í sundlauginni á Blönduósi

Sundlaugin á Blönduósi. Mynd: Róbert Daníel Jónsson.
Sundlaugin á Blönduósi. Mynd: Róbert Daníel Jónsson.

Sundlaugin á Blönduósi hefur verið vel sótt í sumar eins og síðustu sumur. Það sem af er ári hafa 17.141 sundlaugagestir heimsótt laugina. Á sama tíma í fyrra voru sundlaugagestirnir 15.180 talsins og er þetta því aukningin um 12,9% milli ára að því er segir í fréttatilkynningu frá sundlauginni . Sé miðað við  árið 2017, sama tímabil, voru gestir sundlaugarinnar þá 14.530 og nemur aukningin 17,9% og því stöðug aukning ár frá ári. 

Frábær sundlaug og umhverfisvæn

Sundlaugin er tilvalin fyrir alla og draumur fyrir barnafólk. Sundlaugin er 25 x 8,5 metrar að stærð, tveir heitir pottar, gufa, vaðlaug, tvö ísböð, tvær stórar rennibrautir og mikið af skemmtilegum leiktækjum og leikföngum. 

Umhverfisvænar lausnir eru notaðar í sundlauginni. Klór er framleiddur á staðnum og er matarsalt eina afurðin sem þarf í framleiðsluna ásamt rafmagni og vatni. Framleitt er klórgas og það sett beint inn í sótthreinsun auk þess sem kerfið framleiðir klórvatn sem notað er til að mæta dagssveiflum í notkun. Tækið er það fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Helstu kostir nýja kerfisins eru enginn flutningur á milli staða á hættulegum efnum, klórlykt minnkar, sviði í augum minnkar verulega, húðerting minnkar, vistvænt fyrir starfsfólk og stuðlar að umhverfisvænu umhverfi.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir