Gleðilegt sumar!

Sumardagurinn fyrsti er í dag og óskar Feykir lesendum gleðilegs sumars. Þessi fallegi dagur virðist ætla að bjóða upp á ágætis veður, hitinn á Norðurlandi vestra víðast hvar milli 6-7 stig, hæg breytileg átt og bjartviðri, samkvæmt spá Veðurstofunnar. Það er því ekkert því til fyrirstöðu en að fagna komu sumars með því að stökkva í stuttbuxur eða hvað, kannski þeir allra hörðustu, og kíkja á þá viðburði sem eru á dagskrá sem eru reyndar ekki margir en nokkrir þó.

Kvenfélag Lýtingsstaðahrepps verður með kaffihlaðborð í félagsheimilinu Árgarði frá kl. 14-17. Það kostar 2.500 kr. á mann og enginn posi á staðnum, muna að taka með pening. Firmakeppni Hestamannafélagsins Skagfirðings verður í Svaðastaðahöllinni og byrjar kl. 14. Að endingu verða Minningartónleikar um Stefán R. Gíslason tónlistarkennara, organista og kórstjóra í menningarhúsinu Miðgarði kl. 20 sem enginn má missa af og eins og staðan er þegar þetta var skrifað voru örfáir miðar eftir.

Hér áður fyrr var þetta einn mesti gleðidagur ársins og mikil og flott dagskrá venjan en það er ekki raunin í dag en gleðidagur enga að síður fyrir þá krakka sem hafa fengið sumargjafir frá foreldrum sínum. Hér áður fyrr þyrptist fólk hins vegar í skrúðgöngu og á eftir fylgdi talsverð dagskrá sem margir sóttu. Nú hefur dregið að miklu leyti úr hátíðarhöldum á þessum góða degi en það á aldeilis ekki við um Húnaþingi vestra sem hefur haldið í þá hefð að taka daginn með trompi. 

Samkvæmt heimasíðu Húnaþings vestra verður haldið upp á sumardaginn fyrsta á hefðbundinn hátt. Hátíðin hefst með skrúðgöngu frá Félagsheimilinu á Hvammstanga klukkan 13:00. Farinn verður hefðbundinn hringur með viðkomu á Sjúkrahúsinu. Að lokinni skrúðgöngu verður boðið til hátíðar í Félagsheimilinu. Þar afhendir m.a. Vetur konungur Sumardísinni veldissprota sinn. Börn úr fyrsta og öðrum bekk grunnskólans skemmta með söng. Öllum er svo boðið upp á vöfflur og kakó. Á eftir verða spilaðar nokkrar umferðir í bingó þar sem glæsilegir vinningar verða í boði. Foreldrafélag Leikskólans Ásgarðs eru umsjónaraðilar hátíðarinnar í ár. Öll dagskráin er ókeypis og eru allir hjartanlega velkomnir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir