Góutunglið leggst vel í spámenn - Veðurspá Veðurklúbbsins á Dalbæ

Þann 4. febrúar komu saman til fundar ellefu félagar Veðurklúbbsins á Dalbæ og fóru yfir spágildi síðasta mánaðar. Fundarmenn voru nokkuð sáttir með þær hugmyndir sem þeir höfðu um veðrið síðastliðinn mánuð, þó var hann ögn harðari. Næsti mánuður verður áfram umhleypingasamur, þó kannski heldur mildari.

„Tunglið sem er ríkjandi núna er Þorratunglið sem kviknaði 24. janúar. Næsta tungl kviknar í suðvestri 23. febrúar kl 15:32. Það er Góu-tungl og sunnudagstungl og kviknar á Konudaginn.  Það leggst vel í menn,“ segir í tilkynningu frá klúbbnum. Af draumum að ráða finnst spámönnum að febrúarmánuður verði nokkuð kaflaskiptur í veðurfari. Með skeyti Dalbæinga fylgir gömul vísa úr Almanakinu um Pálsmessu, sem er 25. janúar ár hvert, og talið er að hægt sé að ráð í komandi tíðarfar út frá því hvernig veðrið er þann daginn. Veðri var hið skaplegasta á Pálsmessunni svo vænta má góðrar tíðar eftir þessari vísu að dæma:

Ef heiðríkt er úti veður
Á Pálsmessudegi,
Ársins gróða, og gæða meður
get ég að vænta megi.

Með þorrakveðju Veðurklúbbsins á Dalbæ fylgir, samkvæmt venju, veðurvísa fyrir febrúar.

Febrúar á fannir
þá læðist geislinn lágt.
Í mars þá blæs oft biturt
en birtir smátt og smátt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir