Guðlaugstungur meðal fimm svæða sem tilnefnd eru í net verndarvæða Bernarsamningsins

Guðlaugstungur, ásamt Svörtutungum og Álfgeirstungum (Ásgeirstungur) hafa mjög hátt alþjóðlegt verndargildi og hefur verið Ramsarsvæði frá 2013 ásamt því að vera á skrá yfir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði (International Bird Area), segir á vef Umhverfisstofnunar en þaðan er meðfylgjandi mynd af svæðinu tekin.
Guðlaugstungur, ásamt Svörtutungum og Álfgeirstungum (Ásgeirstungur) hafa mjög hátt alþjóðlegt verndargildi og hefur verið Ramsarsvæði frá 2013 ásamt því að vera á skrá yfir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði (International Bird Area), segir á vef Umhverfisstofnunar en þaðan er meðfylgjandi mynd af svæðinu tekin.

Ísland hefur tilnefnt fimm náttúruverndarsvæði hér á landi til að verða hluti af neti verndarsvæða Bernarsamningsins, sem kallast Emerald Network, eftir því sem fram kemur á vef stjórnarráðsins. Þetta var tilkynnt á 41. fundi fastanefndar Bernarsamningsins sem haldinn var í byrjun desember síðastliðinn. Guðlaugs- og Álfgeirstungur er eitt þessara svæða en þau tilheyra Húnavatnshreppi.

Á  heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands kemur fram að  Bernarsamningurinn fjalli um vernd villtra plantna, dýra og búsvæða þeirra í Evrópu og gerðist Ísland aðili að samningnum árið 1993 en til að fylgja eftir markmiðum samningsins eru aðildarríki hvött til að gera tillögu að neti verndarsvæða sem saman mynda eitt net fyrir Evrópu, er kallast Emerald Network.

Guðlaugstungur og Álfgeirstungur eru austan Blöndu,
frá Hofsjökli norðvestur að Blönduvaðaflóa í Blöndulóni,
að austan um Sátu og Hraungarðshaus. Mynd: ni.is.

„Svæðin fimm sem tilnefnd eru sem fyrstu íslensku svæðin í Emerald Nework eru  Guðlaugs- og Álfgeirstungur, Vatnajökulsþjóðgarður, Verndarsvæði Mývatns og Laxár, Vestmannsvatn og Þjórsárver. Allt eru þetta friðlýst svæði sem uppfylla kröfur Bernarsamningsins um verndun vistgerða og tegunda og búsvæða þeirra að hluta eða öllu leyti. Svæðin fimm eru einnig meðal svæða sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lagt til að verði á framkvæmdaáætlun (B-hluta) náttúruminjaskrár út frá verndun vistgerða, fugla, sela og jarðminja á Íslandi en með henni eru lögð drög að neti verndarsvæða hér á landi,“ segir í frétt NÍ en stofnunin undirbjó gögnin sem fylgdu tilnefningunni og voru þau afhent þann 1. desember 2021. Næstu skref eru þau, segir á ni.is, er að tilnefningar Íslands verða metnar af sérfræðingum samningsins í samstarfi við íslensk stjórnvöld og er niðurstöðu að vænta á þessu ári.“

Á Emerald Network svæðum er gerð krafa um lagalega stöðu verndunar, umsjón, vöktun og áætlanir um hvernig vernd og stjórnun verði háttað og segir á vef stjórnarráðsins að þessi svæði hafi verið valin af því að þau uppfylla þær kröfur að hluta eða öllu leyti og vegna þess að þar séu tegundir eða lífsvæði sem mikilvægt er að vernda samkvæmt Bernarsamningnum.

„Í samvinnu við Ísland verða tillögur Íslands metnar af sérfræðingum samningsins m.t.t. þeirra gagna sem skilað var inn til samningsins. Ekki liggur því enn fyrir hvort svæðin verði samþykkt sem hluti af Emerald Network, en niðurstöðu er að vænta á næsta ári.,“ segir á stjornarradid.is.

Guðlaugstungur eru eitt fjölbreyttasta rústamýrasvæði
landsins og raunar eitt af fáum svæðum þar sem
rústamýravist er til staðar, segir á ni.is.
Mynd: Ni.is/ Kristbjörn Egilsson.

Guðlaugstungur eru víðfeðmt og gróskumikið landsvæði á hálendinu upp af Blöndulóni, segir á WikiPedia og er svæðið mikilvægt varp- og beitiland heiðagæsar. „Guðlaugstungur, Svörtutungur og Álfgeirstungur (Ásgeirstungur) voru friðlýstar árið 2005. Friðlýsta svæðið nær frá Hofsjökli niður að ármótum Blöndu og Haugakvíslar við Blöndulón. Svæðið er langstærsta heiðargæsabyggð í heimi en um fjórðungur íslensk-grænlenska heiðagæsastofnsins verpir þar. Á svæðinu eru einhver mestu og samfelldustu votlendissvæði miðhálendisins. Fuglalíf á svæðinu er fjölskrúðugt og eru 28 tegundir árvissir varpfuglar. Mest er af heiðlóu, lóuþræl, þúfutittlingi og heiðagæs. Guðlaugstungur eru að mestu háslétta í 540-500 m.y.s.“

Fleiri fréttir