Halla Tómasdóttir stefnir hraðbyri á Bessastaði

Halla Tómasdóttir.
Halla Tómasdóttir.

Það er næsta víst að Halla Tómasdóttir verður næsti forseti Íslands en nú þegar talin hafa verið 86.551 atkvæði, eða um helmingur greiddra atkvæða, hefur hún umtalsvert forskot á Katrínu Jakobsdóttur. Halla er með 32,4% atkvæða en Katrin 26,3% en sú síðarnefnda hefur þegar óskað Höllu til hamingju með sigurinn í kjörinu.

Flestir höfðu reiknað með spennandi og hnífjafnri kosninganótt en augljóslega var sveiflan með Höllu síðustu dagana og næsta víst að þeir sem völdu sér forseta á síðustu metrum kosningabaráttunnar snérust á sveif með henni. Halla Hrund (15,4%) og Baldur Þórhalls (8,1%) eru að fá umtalsvert minna fylgi en kannanir gerðu ráð fyrir og má kannski leiða af því þá ályktun að margir sem ætluðu að kjósa þau hafi talið atkvæði sínu betur varið hjá Höllu Tómasdóttur.

Halla hefur rekið flotta kosningabaráttu, verið jákvæð og hress og komið frábærlega fyrir. Hún mældist með lítið fylgi til að byrja með en það bættist í það með hverri vikunni og endaði svo með því að ná hæstu hæðum á kjördegi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir