Heilsudagar á Blönduósi hefjast í dag

Heilsudagar á Blönduósi hefjast í dag og standa til laugardags með fjölbreyttri heilsusamlegri dagskrá fyrir unga sem aldna. Markmið daganna er að hvetja íbúa til hreyfingar og að huga vel að heilsu sinni. Þessa daga verður frítt í alla tíma á vegum Íþróttamiðstöðvarinnar á Blönduósi en einnig verður boðið upp á skipulagða gönguferð, hjólaferð og sundlaugarpartý. Dagarnir eru haldnir í samstarfi við íþróttafélögin sem hvetja nýja iðkendur til að koma og prófa hinar ýmsu íþróttir gjaldfrjálst í vikunni.

Tveir fyrirlestrar verða í boði. Í kvöld kl. 19:30 verður Janus Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðingur, með fyrirlestur í norðursal Íþróttamiðstöðvarinnar. Janus rekur fyrirtæki sem vinnur að bættri heilsu og betri lífsgæðum eldri borgara og var hann í sumar sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til eflingar heilbrigðs og íþrótta eldri borgara. Fyrirlestur Janusar nefnist Fjölþætt heilsuefling – Leið að farsælum efri árum.

Seinni fyrirlesturinn heldur Vilborg Gissurardóttir sem er landsmönnum vel kunn fyrir afrek hennar á sviði útivistar, m.a. fyrir að hafa gengið á suðurpólinn og á topp Everest. Fyrirlestur hennar fjallar um grunnatriði í göngu og útivist. Hann verður haldinn nk. föstudag kl. 20:30 í Norðursalnum í Íþróttamiðstöðinni. Á laugardagsmorgun kl. 10:00 verður Vilborg svo með létta gönguferð með tækniæfingum í nágrenni við Blönduós.

Á miðvikudag milli kl. 11 og 14 býður Hjartavernd upp á fría heilsufarsmælingu á HSN á Blönduósi þar sem mældur er blóðþrýstingur, blóðsykur, blóðfita, súrefnismettun og fleira. Þá verður Kjörbúðin með sérstaka heilsuviku sem stendur frá miðvikudeginum 25. september til miðvikudags 2. október. Þessa daga verða heilsutengdar vörur boðnar á góðum afslætti en einnig mun Kjörbúðin gefa ávexti sem boðið verður upp á í Íþróttamiðstöðinni á völdum tímum.

Dagskrá heilsudaga má nálgast á slóðinni http://imb.is/wp-content/uploads/2015/01/Heilsudagar2019.pdf

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir