Heimur norðurljósa – Ísland – Heimildarmynd eftir Árna Rúnar Hrólfsson sýnd í Sjónvarpi Símans

Af hverju að elta Norðurljósin? Hvað eru norðurljósin? Hvernig er að upplifa norðurljósin í fyrsta skipti sem erlendur ferðamaður? Áhrif norðurljósa á íslenska list og menningu? Eftir langt ferli er heimildarmyndin Heimur norðurljósa – Ísland, eftir Árna Rúnar Hrólfsson,  komin út á Sjónvarpi Símans Premium og verður einnig á dagskrá í kvöld, fimmtudaginn 9 apríl kl 19:00.

Árni Rúnar, kvikmyndagerðarmaður, býr á Sauðárkróki en hann nam við Kvikmyndaskóla Íslands frá 2012 – 2014, skapandi tækni, kvikmyndatöku, klippingu, hljóð, vfx og litaleiðréttingu, leikmyndagerð, listasögu, og ljósmyndun, kvikmyndasögu, grunntækninámskeið og myndræna frásögn en fyrir þann tíma var hann m.a. byrjaður að mynda mikið náttúru Skagafjarðar.

„Heimur norðurljósa er gæluverkefni sem ég hef verið með í huga lengi og er ég mikill náttúruunnandi, hef mikið gaman að mynda landslagið og reyna ná þessari fegurð á mynd.

Árni Rúnar Hrólfsson, kvikmyndagerðarmaður

Árni Rúnar Hrólfsson, kvikmyndagerðarmaður.

Heimildarmyndin: Heimur norðurljósa - Ísland var gerð bæði fyrir sýndarveruleika og sjónvarp. Núna er ég búinn að koma þessari mynd í sjónvarp. Sýndarveruleikinn verður vonandi komið fyrir á góðan stað á náinni framtíð,“ segir Árni Rúnar sem hefur sérhæft sig í sýndarveruleika síðustu fimm árin. „Hugmyndin var alltaf að nota sýndarveruleikatækni til að mynda norðurljósin og árið 2016 byrjaði ég að fikra mig áfram í því. Árið 2017 fór ég að þróa hugmyndina og sótti svo styrk til SSNV - Sóknaráætlun Norðurlands vestra. Fékk styrk 2018 og hóf við að mynda norðurljósin fyrir sýndarveruleika, sem var ekki auðvelt, lenti í allskonar erfiðleikum tæknilega og veðurlega séð.“

Árni Rúnar segir að heimildarmyndin sýni frá ljósmyndara, vísindamiðlara, eðlisfræðinema, bónda og háskólarektor sem tengd eru norðurljósunum á einn eða annan hátt og hvernig ljósin hafa haft áhrif á þau.

„Mig langaði að tala um norðurljósin bæði fræðandi og frá upplifunum fólks í landinu. Þetta er oft þannig þegar maður sér ótrúleg norðurljós, að stuttu seinna er varla hægt að lýsa þeim. Sýndarveruleikatæknin gerir okkur kleift að sjá þetta í réttri stærð. Ég notaði svo myndefnið úr því til að setja í heimildarmyndina og tók viðtöl við fólk sem mér þótti mjög áhugavert og voru öll með áhuga og sögu að segja af norðurljósum.“

Árni Rúnar vonast til að þetta sé bara rétt byrjunin hjá sér sem kvikmyndagerðarmanni og þetta eigi eftir að þróast. Hann vill koma sérstökum þökkum til Aðalgeirs Gests Vignissyni, fyrir að gera þessa mynd með sér sem og öðrum þeim sem koma fram í myndinni.

Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr norðurljósamynd Árna Rúnars:

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir