Húnvetningar enduðu í fjórða sæti 4. deildar

Á laugardag mættust lið Kormáks/Hvatar og Hvíta riddarans í leik um bronsverðlaunin í 4. deild. Leikurinn fór fram á Skallagrímsvelli í Borgarnesi og ekki fór bronsið norður því það voru Mosfellingarnir sem höfðu betur og sigruðu 4-3.

Sævar Alexandersson náði forystunni fyrir Hvíta riddarann á 6. mínútu en Hilmar Þór Karlsson jafnaði þremur mínútum síðar. Ingvi Rafn Ingvarsson kom sínum mönnum yfir á 34. mínútu en á lokamínútu fyrri hálfleiks jafnaði Wentzel Steinar R. Kamban metin og staðan því 2-2 í hálfleik. Síðari hálfleikur var aðeins fjögurra mínútna gamall þegar Wentzel kom Hvíta riddaranum yfir á ný, staðan 3-2 og þannig stóðu leikar þar til á 88. mínútu þegar Daníel Gunnarsson kom Hvítum í 4-2. Jón Gísli Stefánsson lagaði stöðuna fyrir Kormák/Hvöt á 94. mínútu en lengra komust Húnvetningar ekki að þessu sinni. 

Árangur K/H var með ágætum í sumar, liðið sigraði í B-riðli 4. deildar eftir glæsta níu leikja sigurhrinu. Liðið lenti í að missa leikmenn í bönn í úrslitakeppninni og var það ekki til að bæta stöðu þess. Í undanúrslitum mættu Húnvetningar liði Ægis frá Þorlákshöfn, sem árið áður spilaði í 3. deild, og reyndist Ægir of stór biti. Enda fór svo að Ægir sigraði Elliða, 3-0, í úrslitaleik um gullið í 4. deildinni en leikið var í Egilshöllinni sl. laugardag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir