Í návígi við villt dýr

Fallegur er hann. Mynd Róbert Daníel Jónsson.
Fallegur er hann. Mynd Róbert Daníel Jónsson.

Þann 3. mars var alþjóðlegur dagur villtra dýra og í tilefni hans mátti sjá margar fallegar myndir á samfélagsmiðlum þar sem fólk deildi þeim myndum sem það hefur náð að festa á filmu hér á landi. Róbert Daníel Jónsson og Höskuldur Birkir Erlingsson, vinir okkar frá Blönduósi, birtu nokkrar mjög fallegar sem við ætlum að deila með ykkur í þessari frétt en Róbert Daníel átti einnig heiðurinn af forsíðumyndunum á Feyki þessa vikuna. 

En Ísland státar ekki af mörgum tegundum villtra dýra miðað við mörg önnur lönd og álfur. Landið er einangrað og er góður vettvangur fyrir fugla og sjávardýr. Smám saman hefur samt fjölgað í fljúgandi skordýrum sem hafa borist til landsins með vindum og innfluttum varningi. Varpfuglaflóran hefur einnig stækkað smám saman en einu tegundir fljúgandi spendýra sem hafa borist til landsins, þrífast sem betur fer ekki hér og erum við þá að tala um leðurblökur. Þá þrífast slöngur, snákar og skriðdýr ekki utanhúss hérlendis en hafa verið fluttar inn ólöglega sem gæludýr. En samkvæmt vísindavefnum eru hér sex tengundir villtra landspendýra og tvær tegundir sela kæpa meðfram ströndum landsins.

Þessar tegundirnar eru:
• Tófa (Alopex lagopus)
• Minkur (Mustela vison)
• Hreindýr (Rangifer tarandus)
• Hagamús (Apodemus sylvaticus)
• Húsamús (Mus musculus)
• Brúnrotta (Rattus norvegicus)
Selir
• Landselur (Phoca vitulina)
• Útselur (Halichoerus grypus

Á Íslandi lifir ein tegund refa villt. Það er tófan eða melrakkinn. Tófan settist að á Íslandi í lok ísaldar, fyrir um það bil 10 þúsund árum, en hingað komst hún á hafís. Af tófunni eru tvö meginlitarafbrigði, hið hvíta og hið mórauða. Auk þess er allmikill breytileiki í lit innan hvors afbrigðis um sig. Ræktaða afbrigðið af tófu, sem oftast er nefnt blárefur, er innflutt og er uppruni þess blandaður.

 

Minkar voru fyrst fluttir til Íslands haustið 1931 en þá voru þrjú dýr keypt af norskum loðdýrabændum og flutt að Fossi í Grímsnesi. Nokkrum mánuðum síðar voru 75 minkar fluttir á nýstofnað bú á Selfossi. Minkabúum fjölgaði síðan á næstu árum og var meðal annars stofnað bú að Selási við Reykjavík. Minkar sluppu sannanlega fyrst úr haldi haustið 1932 og gerðist það á Grímsnesbúinu. Á næstu árum sluppu minkar einnig úr öðrum búum, meðal annars úr Selásbúinu. Fyrsta minkagrenið fannst árið 1937 og var það við Elliðaárnar í Reykjavík. Vorið eftir fannst minkagreni við Leirvogsá í Mosfellssveit og á næstu árum veiddust stöðugt fleiri villtir minkar.

Í dag eru hreindýr aðeins á Austurlandi en svo var ekki alltaf. Hreindýr voru flutt til Íslands frá norður Noregi í fjórum hópum á árunum 1771-87. Þrír fyrstu hóparnir sem fluttir voru til landsins, það er að segja til Vestmannaeyja og Rangárvallasýslu árið 1771, Reykjaness árið 1777 og til Norðurlands árið 1784, dóu allir út. Talið er að harðir vetur, hagleysa og ofbeit í vetrarhögum hafi ráðið mestu um að þessir stofnar dóu smám saman út. Fjórði hópurinn var fluttur til Vopnafjarðar árið 1787. Náttúra Austurlands virðist hafa hentað hreindýrunum mjög vel og eru dýrin sem lifa á landinu í dag afkomendur þessara dýra.

Talið er að strax á fyrstu áratugum Íslandsbyggðar hafi tvær tegundir nagdýra borist hingað með mönnum frá Noregi og/eða skosku eyjunum. Þetta voru hagamúsin og húsamúsin. Brúnrottan barst hingað seinna, hugsanlega á 18. öld, þótt heimildir séu ekki nákvæmar og hugsanlega hefur verið um svartrottu að ræða. Þó er vitað með vissu að brúnrottan var komin til Íslands árið 1820.

Á 19. og 20. öld voru gerðar nokkrar tilraunir til innflutnings fleiri tegunda villtra spendýra frá nágrannaþjóðunum. Meðal þeirra voru héri, sauðnaut, silfurrefur og blárefur en engin tegundanna náði fótfestu. Þrjár tegundir leðurblaka hafa borist hingað með vindum en þær hafa ekki fjölgað sér. Kanína er algengt gæludýr á Íslandi sem hefur sloppið út í náttúruna, náð að lifa af og fjölga sér. Hún er þó ekki talin hluti af spendýrafánu landsins.

Fána sjávarspendýra er öllu ríkulegri en landspendýra þó tiltölulega fáar tegundir hafi fast aðsetur á Íslandsmiðum. Tvær tegundir sela, landselur og útselur, kæpa hér að staðaldri og fjórar selategundir, hringanóri, vöðuselur, blöðruselur og kampselur, sjást af og til við strendur landsins. Rostungur slæðist einnig hingað af og til úr norðri. Hvalir eru flestir fardýr í eðli sínu en nokkrir hvalastofnar dvelja á svæðum innan íslensku lögsögunnar. Alls hafa 23 tegundir hvala sést á Íslandsmiðum en sumar þeirra halda sig á úthafinu og sjást því afar sjaldan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir