„Íslensk lopapeysa“ er verndað afurðarheiti

Peysan skal hafa hringprjónað berustykki með munsturformum og/eða munsturbekkjum frá herða- eða axlalínu að hálsmáli. Mynd: Facebooksíða Handpjónasambands Íslands.
Peysan skal hafa hringprjónað berustykki með munsturformum og/eða munsturbekkjum frá herða- eða axlalínu að hálsmáli. Mynd: Facebooksíða Handpjónasambands Íslands.

Matvælastofnun hefur samþykkt að heitið Íslensk lopapeysa – Icelandic Lopapeysa verði skráð sem verndað afurðarheiti með vísan til uppruna. Það var Handprjónasamband Íslands sem sótti um vernd fyrir afurðarheitið og er þetta annað afurðarheitið sem hlýtur vernd hérlendis frá því að lög þess efnis tóku gildi árið 2015. Áður hlaut heitið „Íslenskt lambakjöt“ skráða vernd.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að auglýsing um skráninguna hafi verið birt á vef Stjórnartíðinda þar sem afurðarlýsing kemur fram.  Hverjum þeim sem framleiðir lopapeysu í samræmi við afurðarlýsinguna er heimilt að nota heitið Íslensk lopapeysa – Icelandic Lopapeysa og nota opinbert auðkennismerki samkvæmt reglugerð um skráningu afurðarheita.

Helstu skilyrði eru eftirfarandi:

  1. Ullin sem notuð er í handprjónaðar íslenskar lopapeysur skal vera klippt af íslensku sauðfé.
  2. Í peysuna skal notuð nýull (ull sem ekki er endurunnin).
  3. Peysan skal vera prjónuð úr lopa, s.s. plötulopa, Léttlopa, Álafosslopa o.s.frv.
  4. Peysan skal hafa hringprjónað berustykki með munsturformum og/eða munsturbekkjum frá herða- eða axlalínu að hálsmáli.
  5. Peysan skal vera handprjónuð á Íslandi.
  6. Peysan skal vera prjónuð í hring án sauma (samsetningar).
  7. Peysan skal vera opin eða heil.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir