Kirkjuklukkur hljóma til stuðnings heilbrigðisstarfsfólki

Hofsósskirkja. Mynd:FE
Hofsósskirkja. Mynd:FE

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, hefur óskað eftir því við samstarfsfólk sitt í kirkjum landsins að kirkjuklukkum í sóknum þeirra verði hringt kl. 14.00 á mánudögum í tvær mínútur til að lýsa yfir stuðningi við heilbrigðisstarfsfólk og önnur þau er koma að málum sem lúta að kórónuveirunni, covid-19.

Almenningur er afar þakklátur því fólki sem stendur í ströngu þessar vikurnar vegna covid-19-faraldursins. Í frétt á vefnum kirkjan.is segir að víða í útlöndum hafi fólk farið út á svalir í húsum sínum og klappað og sungið eða gert eitthvað annað til að lýsa yfir þakklæti sínu til þeirra er standa í fremstu víglínu í baráttu gegn veirunni.

„Með því að hringja kirkjuklukkum til stuðnings þessari vösku sveit heilbrigðisstarfsfólks og annarra hópa er koma að þessum málum, vill kirkjan taka undir þakklæti almennings sem og fleyta því áfram með þessum merkilegu áhöldum sem kirkjuklukkur eru og hafa fylgt kirkjunni frá ómunatíð.

Þegar kirkjuklukkur óma á mánudaginn kl. 14.00 og næstu mánudaga þar á eftir, getur fólk tekið undir óminn í huga sínum og þakkað Guði fyrir gott starfsfólk á vettvangi heilbrigðis- og almannaöryggismála á veirutíð,“ segir á vef Kirkjunnar, kirkjan.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir