Las Sólon Íslandus einu sinni á ári

Guðrún H. Halldórsdóttir á margar uppáhaldsbækur. Aðsend mynd.
Guðrún H. Halldórsdóttir á margar uppáhaldsbækur. Aðsend mynd.

Það var Guðrún Hanna Halldórsdóttir, fyrrum skólastjóri og síðar deildarstjóri við Sólgarðaskóla í Fljótum, sem svaraði spurningum Bók-haldsins í 42. tbl. Feykis árið 2017. Guðrún, sem er komin á fríaldurinn að eigin sögn, er Siglfirðingur að upplagi en hefur lengst af búið á Helgustöðum í Fljótum. Hún er nú flutt til Ólafsfjarðar ásamt bónda sínum Þorsteini Jónssyni. Í bókahillunum hjá Guðrúnu eru nokkur hundruð bækur og aðspurð um hvers konar bækur séu í mestum metum segist hún vera bókaormur og lesa alls kyns bókmenntir og hún hafi dálæri á mörgum höfundum af mismunandi ástæðum. 

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?

Ævintýrabækurnar og Fimm bækurnar eftir Enid Blyton voru  í miklu  uppáhaldi og innlifunin var eftir því. Það var njósnað og ýmsir góðborgarar  voru sterklega grunaðir um smygl sem þurfti að upplýsa. Í þá tíð var ímyndunaraflið notað og eftir lestur ævintýrabókanna var hugurinn fullur af hugmyndum sem þær kveiktu hjá okkur sem lásum þær. Eitthvað af þessum hugmyndum komst til framkvæmda hjá okkur krökkunum á þessum árum og hlutu ekki allar okkar gjörðir, þó saklausar væru, náð fyrir augum fullorðna fólksins.
Ég var mörg ár í sveit sem barn og fyrsta fullorðinsbókin sem ég las (þá var ég u.þ.b. níu ára) var Sólon Íslandus eftir Davíð Stefánsson. Hún er í  tveimur bindum og ég  las hana oft, a.m.k. einu sinni á ári. Hún var áreiðanlega ekki talin vera bók fyrir börn. Ég á þessar sömu gömlu bækur í dag, mátti velja mér til eignar bækur úr safni gamla bóndans og þær eru ofarlega á lista af mínum uppáhalds bókum.

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?

Þær eru margar en af seinni tíma bókum eru það Ljósa og Vonarlandið eftir Kristínu Steinsdóttur, Reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur, Óvinafögnuður eftir Einar Kárason, Dalalíf Guðrúnar frá Lundi og fleiri. Ekki má svo gleyma að nefna Skólaljóðin (bláa bókin) og vísna- og ljóðabækur.

Hvaða bók/ bækur er/eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?

Næturstaður og Blár þríhyrningur eftir Sigurð Pálsson og Konan í Dalnum og dæturnar sjö eftir Guðmund G. Hagalín.    

Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið?

Ég kaupi nokkrar og fæ líka nokkrar að gjöf.

Eru ákveðnir höfundar/bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf?

Byggðasagan, frá því hún fór að koma út og er svo frábær og fróðleg bók.

Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig?

Ástarljóð Davíðs Stefánssonar sem ég fékk á silfurbrúðkaupsdaginn minn. 

Hefur þú heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis?

Það þarf nú ekki alltaf að fara langt til að finna fyrir sögunni. Ég hef haft sögusvið Dalalífs (Guðrúnar frá Lundi) í næsta nágrenni við mig frá unga aldri. Nýlega fórum við kvenfélagskonur úr Fljótum í frábæra ferð í Húnavatnssýslu um sögusvið Náðarstundar en það er bók um síðustu aftöku á Íslandi eftir Hönnuh Kent (á slóðir Natans Ketilssonar, Péturs Jónssonar, Agnesar Magnúsardóttur og Friðriks Sigurðssonar). Með okkur var alveg frábær sagnaþula, Kristín Sigurrós Einarsdóttir sem var mjög fagmannleg í sínu frásagnarhlutverki, hún færði okkur alveg inn í söguna þannig að allt þetta dramatíska sögusvið varð ljóslifandi fyrir okkur.                                                                                                                                                                
Sólon Íslandus, saga Sölva Helgasonar eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, byrjar og endar í Sléttuhlíðinni, með viðkomu í Fljótum. Við, kennarar á Sólgörðum, kynntum eitt vorið, bernsku Sölva fyrir nemendum okkar og fórum svo með nemendur okkar á slóðir Sölva Helgasonar  í grenndarnám. Það var aldeilis vel heppnað og ekki spillti fyrir að þegar við komum að Lónkoti var okkur boðið í vöffluveislu og súkkulaði hjá Ólöfu og Jóni  í Lónkoti. Þar var gaman að koma og sjá bækur, myndir og fá fróðleik um Sölva við minnismerki hans.   
Ég hef farið á slóðir Moniku á Merkigili og undrast kjark og dugnað þessarar konu og hennar fjölskyldu. Þegar ég kom fyrst í Austurdalinn þá orkaði  allt umhverfið mjög sterkt á mig og sótti að mér í vöku og draumi lengi á eftir. Austurdalurinn, Merkigilið og Jökulsárgljúfrið eru svo ótrúlega magnaðir staðir.
Þetta er það sem fyrst kemur í hugann en svo hef ég farið mikið um landið okkar og  í öllum landshlutum eru staðir sem tengjast bókum og  sem ég hef lesið.

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?

Ég á svo marga sem mér þykir vænt um og ekki fengju allir sömu bók.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir