Laufey Kristín Skúladóttir ráðin til Byggðastofnunar

Laufey Kristín Skúladóttir. Mynd: byggdastofnun.is.
Laufey Kristín Skúladóttir. Mynd: byggdastofnun.is.

Laufey Kristín Skúladóttir hefur verið ráðin í starf sérfræðings á þróunarsviði Byggðastofnunar. Starfið var auglýst í byrjun janúar og rann umsóknarfrestur út þann 28. janúar. 21 umsókn barst um starfið, átta konur og þrettán karlar, en einn aðili dró umsókn sína til baka. Frá þessu er greint á vef Byggðastofnunar.

Laufey er með MSc gráðu í stjórnun nýsköpunar og viðskiptaþróunar frá Copenhagen Business School og BA gráðu í hagfræði með heimspeki sem aukafag frá Háskóla Íslands. Undanfarin ár hefur hún starfað hjá Fisk-Seafood sem markaðs- og sölustjóri. Þar áður starfaði Laufey sem verkefnastjóri hjá Sveitarfélaginu Skagafirði og sem atvinnuráðgjafi hjá SSNV. Hún er fulltrúi í sveitarstjórn í Sveitarfélaginu Skagafirði. Laufey mun hefja störf hjá Byggðastofnun á næstunni.

Eiginmaður Laufeyjar er Indriði Þór Einarsson, verkfræðingur, og eiga þau þrjár dætur.

 „Verkefnin verða fjölbreytt, en á meðal helstu verkefna Laufeyjar verður að vinna við undirbúning og gerð byggðaáætlunar og vinna við greiningar á þróun byggðar á lands- og landshlutavísu með tilliti til byggðaáætlunar og sóknaráætlana landshluta," segir á vef Byggðastofnunar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir