Raflínunefnd verður skipuð vegna Holtavörðuheiðarlínu 1

Af Holtavörðuheiði. MYND AF HÚNI.IS
Af Holtavörðuheiði. MYND AF HÚNI.IS

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að skipa raflínunefnd vegna framkvæmdar sem fengið hefur vinnuheitið Holtavörðuheiðarlína 1. Í frétt í Húnahorninu segir að gert sé ráð fyrir að framkvæmdin muni ná til fjögurra sveitarfélaga: Hvalfjarðarsveitar, Skorradalshrepps, Borgarbyggðar og Húnaþings vestra. Fyrirhuguð framkvæmd er 220kV loftlína sem áætlað er að liggi frá tengivirkií Hvalfirði að nýju tengivirki sem byggt verður á Holtavörðuheiði. Áætlað er að framkvæmdir hefjist árið 2027. Sagt er frá þessu á vef Stjórnarráðsins.

Nefndin er skipuð í samræmi við ákvæði í skipulagslögum frá árinu 2023 en samkvæmt því er ráðherra heimilt að skipa sérstaka raflínunefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa, kynna og afgreiða raflínuskipulag fyrir framkvæmd í flutningskerfi raforku sem nær til tveggja eða fleiri sveitarfélaga og afgreiða umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir henni. Ráðherra er þetta heimilt að undangenginni beiðni frá aðila sem ber ábyrgð á framkvæmd í flutningskerfi raforku eða ef sveitarfélag leggur fram beiðni þess efnis.

Landsnet sendi ráðuneytinu beiðni í lok júní síðastliðinn um skipun raflínunefndar vegna Holtavörðuheiðarlínu 1. Einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi sem um ræðir mun eiga sæti í nefndinni, auk fulltrúa umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og fulltrúa félags- og húsnæðismálaráðherra. Síðastnefndi fulltrúinn verður formaður nefndarinnar.

Frétt af Húni.is

Fleiri fréttir