Litla samfélagið með stóra hjartað - Áskorandinn : Sara Diljá Hjálmarsdóttir Skagaströnd

Fyrir fjórum árum síðan tókum við hjónin þá ákvörðun að flytjast búferlum frá Stykkishólmi á Skagaströnd. Ákvörðunin var í sjálfu sér ekkert erfið, hér eru góð fiskimið fyrir manninn minn að sækja og ég sá fram á að geta fengið vinnu í skólanum á staðnum. Við settum húsið fyrir vestan á sölu og héldum norður í land með börnin okkar tvö.

Birkir, maðurinn minn, vissi alveg út í hvað hann var að fara enda alinn upp á Hofi á Skaga en ég sem sleit barnskónum í Stykkishólmi var með hjartað í buxunum. Það rann strax upp fyrir mér þegar komið var á staðinn að hér byggi gott fólk. Ég fann strax fyrir hlýju frá öllum sem á vegi mínum urðu og fannst fólkið hér leggja sig fram um að taka vel á móti okkur. Ég ætla ekki að ljúga því að allt hafi gengið eins og í sögu frá fyrstu stundu því eins og allir þeir sem flutt hafa á nýjan stað vita þá tekur tíma að koma sér inn í samfélagið og eignast þar vini og kunningja.

Skagaströnd er að mínu mati einstakur staður. Samfélagið er lítið og náið og hver einstaklingur skiptir máli. Síðan ég flutti hingað hefur margt gott verið sett á laggirnar og þótti mér einstaklega skemmtilegt að heyra af því í haust þegar körfuboltaæfingar hófust. Að mínu mati skiptir fjölbreytni í tómstundarvali fyrir börn miklu máli því það er deginum ljósara að börn eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Það eru í raun algjör forréttindi að vera barn á Skagaströnd, í samfélagi sem ekki telur fleiri en raun ber vitni er úrval tómstunda mjög mikið og alltaf að bætast við.

Hugur minn liggur í körfubolta og sundi, ég tel að körfuboltinn hér muni eflast enn frekar og það er í höndum okkar fullorðna fólksins að hvetja börnin okkar til að prófa. Hvað sundmálin varðar, er það efni í allt annan pistil. Ég tel mikilvægt að Skagaströnd taki af skarið og reisi hér nýja sundlaug við hlið íþróttahúss. Góð sundlaug hefur mikið samfélagslegt gildi og myndi efla það góða samfélag sem hér er, til muna.

Góðar stundir!

Ég skora á Hugrúnu Sif, skólastjóra tónlistarskóla Austur Húnvetninga að taka við pennanum.

Áður birst í 16. tbl. Feykis 2019

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir