Metnaðarfull sumarsýning hjá Heimilisiðnaðarsafninu

Frá opnun sýningarinnar sl. laugardag. Frá vinstri: Corran Olivia Green, sýningastjóri, Halla Lilja Ármannsdóttir, listakona og prjónahönnuður og Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður, MYND: Gunnar Þór Jóhannesson.
Frá opnun sýningarinnar sl. laugardag. Frá vinstri: Corran Olivia Green, sýningastjóri, Halla Lilja Ármannsdóttir, listakona og prjónahönnuður og Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður, MYND: Gunnar Þór Jóhannesson.

Sumarsýning Heimilisiðnaðarsafnsins Halla, Hún er ég – Prjónatilveran var opnuð laugardaginn 7. júní að viðstöddum fjölda gesta. Að þessu sinni er það Halla Lilja Ármannsdóttir sem er með fjölbreytta prjónasýningu. Um er að ræða prjónaðar flíkur og margs konar nytjahluti og skúlptúra.

Við opnunina söng Steinunn Kristín Valtýsdóttir (Dídí) tvö lög án undirleiks við mjög góðar undirtektir gesta.

Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður safnsins, flutti ávarp og rifjaði upp hve tilkoma nýja hluta safnhússins sem tekinn var í notkun fyrir 22 árum, hefði opnað nýjar víddir og bætt aðgengi gesta að öllu safninu og munum þess. Safnið starfar í samræmi við safnalög og er viðurkennt af Safnaráði. Nefndi hún einnig að fyrir utan hefðbundið safnastarf færu fram ýmsir menningar-viðburðir á safninu s.s. stofutónleikar, fyrirlestrar, námskeið og upplestur á aðventu fyrir utan sérstakar nemendaheimsóknir. Þá væri tekið á móti fjölmörgum hópum, innlendum sem erlendum, utan hefðbundins opnunartíma, sérstaklega á vor- og haustmánuðum. Margar bækur hafa verið ritaðar á ýmsum tungumálum sem byggja á munum safnsins.

Aukinn fjölbreytileiki í sýningarflórunni

Elín sagði að markmið árlegra Sumar/sérsýninga safnsins væri að auka fjölbreytileika í sýningarflóru þess og auðga menningarlíf héraðsins en ekki síst að veita safngestum sýn á margs konar handiðn á Íslandi sem og að vekja athygli á viðkomandi listamanni og verkum hans.

Halla Lilja er prjónahönnuður og textíllistakona. Hún útskrifaðist með láði frá London Collage of Fashion 2021. Frá síðastliðnu hausti hefur hún stund-að meistaranám í textílhönnun við Swedish School of Textiles og mun útskrifast á næsta vori. Halla hefur sett sér háleit markmið og nú þegar vakið verðskuldaða athygli bæði innanlands og utan.

Hér gefur að líta mjög metnaðarfulla sýningu og er um að ræða skemmtilega tengingu við menningararfinn.

- - - -

Á myndinni hér neðst eru frá vinstri: Steinunn Kristín (Dídí) Valtýsdóttir, söngkona, Corran Olivia Green, sýningastjóri,Halla Lilja Ármannsdóttir, listakona og prjónahönnuður, Kristín Erla Sævarsdóttir, sumarstarfsstúlka og Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður   MYND; Hjálmar Sigurðsson

 

Fleiri fréttir