Miðfjarðará komin yfir þúsund laxa markið

Miðfjarðará og Laugarbakki í Miðfirði. Mynd:northiceland.is
Miðfjarðará og Laugarbakki í Miðfirði. Mynd:northiceland.is

Landssamband veiðifélaga hefur birt lista yfir aflahæstu laxveiðiár landsins og er hann byggður á aflatölum í lok dagsins í gær, 21. ágúst. Þar má sjá að tvær ár hafa nú bæst í hóp þeirra sem farið hafa yfir þúsund laxa markið en það eru Ytri-Rangá og Miðfjarðará þar sem veiðin er komin í 1.091 lax og situr hún nú í fjórða sæti yfir aflahæstu árnar. Þar var vikuveiðin 107 laxar. Á sama tíma í fyrra höfðu 2.039 laxar veiðst í ánni.

Blanda er sú sjöunda á listanum og hefur hún færst niður um eitt sæti. Þar var vikuveiðin aðeins 11 laxar og er nú heildartalan komin upp í 572 laxa samanborið við 853 í fyrra. Fast á hæla henni fylgir svo Laxá á Ásum með 566 laxa í áttunda sætinu en þar veiddust 64 laxar í vikunni. Er hún eina áin í landshlutanum þar sem meira hefur veiðst í ár en í fyrra þó þar muni reyndar aðeins einum laxi.

Í Vatnsdalsá hafa 283 laxar komið á land en þeir voru 353 í fyrra. Vikuveiðin þar voru 56 laxar. Víðidalsá er með 276 laxa samanborið við 439 í fyrra en hún skilaði 44 fiskum í vikunni. Í Hrútafjarðará og Síká var vikuveiðin 52 laxar og er heildarveiðin þar nú komin í 215 laxa en voru 245 í fyrra. Svartá rekur svo lestina með 16 laxa, einum meira en í síðustu viku og allmikið færri en á síðasta ári þegar 110 laxar höfðu veiðst í ánni.

Listann í heild sinni má nálgast á angling.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir