Námskeið í stafrænum vefnaði í Textílmiðstöðinni

Hluti af afrakstri námskeiðsins. Mynd: Textílmiðstöð Íslands - þekkingarsetur á Blönduósi
Hluti af afrakstri námskeiðsins. Mynd: Textílmiðstöð Íslands - þekkingarsetur á Blönduósi

Um síðustu helgi, dagana 14.-16. febrúar,  var haldið námskeið í stafrænum vefnaði í TC2 vefstól í Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi. Námskeiðið er hluti af rannsóknar- og þróunarverkefni Textílmiðstöðvarinnar sem nefnist Bridging Textiles to the Digital Future. Var það styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís og er haldið til að kynna þessa stafrænu tækni fyrir textíllistamönnum og hönnuðum á Íslandi.

Á námskeiðinu, sem sagt er frá á Facebooksíðu Textílmiðstöðvarinnar,  voru félagar úr Textílfélagi Íslands og fatahönnuður og textílkennari frá Akureyri. Kennt var hvernig hægt er að nota Photoshop forritið til að gera vefskjöl sem ofin eru í TC2 og ófu þátttakendur nokkrar prufur hver.

Í næsta mánuði tekur Textílmiðstöð Íslands í fyrsta sinn þátt í HönnunarMars sem er uppskeruhátíð sem sameinar allar greinar íslenskrar hönnunar. Hátíðin verður haldin í Reykjavík dagana 25.-29. mars. Sýningin nefnist Hefðbundin munstur í stafrænni framtíð og verður staðsett á Hlemmi í Setri Skapandi Greina. Þar verður kynntur afrakstur tveggja verkefna Textílmiðstöðvar Íslands sem sýna fram á möguleika í stafrænni tækni í vefnaði og hönnun. Á sýningunni verða prufur, efni og áklæði sem eru ofin í TC2 stafrænum vefstól byggð á gömlum vefnaðarmunstrum auk nýrra hugmynda að hönnun fyrir textílvörur unnið í samstarfi Textílmiðstöðvar og Myndlistaskólans í Reykjavík.

Sjá nánar á www.honnunarmars.is.

Fleiri fréttir