Prjónagleði frestað um ár

Mynd: Prjónagleði - Iceland Knit Fest á Facebook
Mynd: Prjónagleði - Iceland Knit Fest á Facebook

Ákveðið hefur verið að fresta Prjónagleðinni sem halda átti dagana 12.-14. júní í sumar um ár eða til 11. - 13. júní 2021. Er það gert vegna COVID-19 faraldursins sem nú leikur allt samkomuhald í landinu grátt. Engu að síður verður áður auglýst prjónasamkeppni haldin en mun nú fara fram á netinu og verður almenningi gefinn kostur á að kjósa sína uppáhaldshönnun. Einnig verður haldið áfram að kynna einstaklinga og fyrirtæki sem vinna með ull á Textílslóð Norðurlands vestra.

Í tilkynningu frá Textílmiðstöð Íslands segir:

Til að viðhalda prjóna- og sköpunargleðinni höldum við ótrauð áfram með prjónasamkeppnina, en í ár verður keppnin á netinu og almenningur fær tækifæri til að kjósa sína uppáhaldshönnun.  Til að viðhalda sköpunar- og prjónagleðinni á meðan á faraldrinum stendur, munum við halda samkeppnina þrátt fyrir að ekki verði af sjálfri Prjónagleðinni. Samkeppnin fer þannig fram að þátttakendur senda okkur myndir og upplýsingar um höfuðfatið sem við síðan birtum á Facebook-síðu Prjónagleðinnar. Gestir síðunnar kjósa sitt uppáhalds höfuðfat í framhaldin og þeir vinna sem fá flest stig. Ekki verða birt nöfn hönnuða fyrr en við tilkynningu á vinningshöfum!  

Við höldum líka áfram að kortleggja Textílslóð Norðurlands vestra. Textílslóðin er ný af nálinni en henni er ætlað að styðja og kynna einstaklinga og fyrirtæki sem vinna með ull og annan textíl í landshlutanum.  

„Það er okkur mikilvægt að kynna þá ríku arfleifð handverkskunnáttu og textílframleiðslu sem hér er að finna. Hér má finna sýningar, garnframleiðendur, ullarframleiðendur og afþreyingu sem tengist þessari arfleifð. Saga textíls er saga kvenna. Við viljum skapa sjáanlegt net um landshlutann sem sýnir þetta og sannar.“

Þeir sem hafa áhuga á að vera með í Textílslóð er bent á að senda tölvupóst til greta@textilmidstod.is

Þú getur fengið nýjustu fréttir af textílslóðinni, prjónagleði næsta árs, og prjónakeppninni á facebooksíðu hátíðarinnar: Prjónagleði – Iceland Knit Fest. 

Reglur prjónakeppninnar: Forsendur/verklýsing:

Senda 3-4 myndir í skilaboð á Facebókarsíðu Prjónagleðinnar; Prjónagleði Icelandic Knit Fest eða á netfangið johanna@textilmidstod.is. Myndirnar skulu þær sýna allt höfuðfatið og nákvæmari útfærslur.  

Með skilaboðunum þarf að koma fram nafn, heimilisfang og símanúmer. 

Þá skal fylgja lausleg uppskrift ásamt lýsingu á aðferð og upplýsingum um tegund. Verðlaun fyrir þrjú efstu sætin og horft til frumlegustu og bestu útfærslunnar.  

Eftirfarandi fyrirtæki ætla að leggja okkur lið og gefa glæsileg verðlaun. Þau eru; Ístex, Ísgel, Vilkó, Kidka. 

Samkeppnin stendur yfir þar til 10. júní en tilkynning um verðlaunahafa verður birt laugardaginn, 13. júní 2020 á Facebook síðu Prjónagleðinnar; Prjónagleði Icelandic Knit Fest.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir