Prjónagleði í fjórða sinn - Fjölbreytt dagskrá með fróðleik og skemmtun

Teppi, prjónað af Jóhönnu Erlu Pálmadóttur. Það verður á Prjónagleðinni og getraun með. Aðsend mynd.
Teppi, prjónað af Jóhönnu Erlu Pálmadóttur. Það verður á Prjónagleðinni og getraun með. Aðsend mynd.

Hin árlega prjónahátíð, Prjónagleðin, verður haldin á Blönduósi um hvítasunnuhelgina eða dagana 7.-10. júní. Þetta er í fjórða skipti sem hátíðin er haldin en það er Textilmiðstöð Íslands sem að henni stendur. Á Prjónagleði kemur saman fólk sem hefur áhuga á prjónaskap og skiptir þá engu máli hvað mikil innistæða er í reynslubankanum. Þema hátíðarinnar að þessu sinni er „hafið“ en dagur hafsins er haldinn hátíðlegur þann 8. júní ár hvert.

Dagskráin er fjölbreytt. Setning Prjónagleðinnar verður á föstudegi og eru allir hjartanlega velkomnir.

Hægt er að velja úr fjölda námskeiða hjá íslenskum sem erlendum kennurum og kennir þar margra grasa, s.s. námskeið í að prjóna tvo sokka samtímis og byrja á tánni, kennt að spinna á halasnældu, sundprjón, byrjendanámskeið í prjóni, prjónatrix og fínerí fyrir prjónanörda og sólarlitun með plöntum úr næsta nágrenni, svo eitthvað sé nefnt. Nokkrir fyrirlestrar eru í boði um forvitnileg efni sem tengjast prjónaskap og prjónatengdur ratleikur mun standa yfir alla helgina.  Einnig má nefna að farið verður í heimsókn í Ullarþvottastöð Ístex á Blönduósi á föstudag en opið verður þar á milli 12 og 18 og allir velkomnir. Þar má fræðast um það ferli sem á sér stað áður en hægt er að spinna ullina.

Í tilefni af Prjónagleðinni verður opið sölutorg í Félagsheimilinu á Blönduósi. Þar verður lögð áhersla á að kynna fjölbreytta prjónavöru og þjónustu sem í boði er, jafnt fyrir áhugasama prjónara og aðra þá sem hafa gaman af að skoða eitthvað fallegt. Sölutorgið verður opið klukkan 10-18 á laugardag og sunnudag og klukkan 10-16 á mánudag.

Götugrill verður undir tónum flamingógítaristans Reynis Haukssonar á laugardagskvöldið og afhending verðlauna vegna samkeppninnar um hið eina sanna „Sjávarsjal“.

Á mánudag og þriðjudag, 10. og 11. júní, mun listafólk og ýmsir söluaðilar á Norðurlandi vestra hafa opið hús í tilefni Prjónagleðinnar. Eftirtaldir aðilar hafa skráð sig til leiks: Rúnalist á Stórhóli í Skagafirði, Lýtingsstaðir, Sölvanes í Skagafirði, Hilma – hönnun og handverk á Sauðárkróki, Sveitamarkaður á Hólabaki í Húnavatnshreppi, Listakot Dóru í Vatnsdal, Handverkshúsið Bardúsa á Hvammstanga og Handbendi – Brúðuleikhús á Hvammstanga.  

Þá má geta þess að fjölmargir aðilar á Blönduósi og nágrenni bjóða upp á afslátt af vöru og þjónustu gegn framvísun helgar- og dagspassa á Prjónagleði.

Allar nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á heimasíðu Textilmiðstöðvar Íslands, www.textilmidstod.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir